LJÓÐ DAGSINS ERU EFTIR PÓLSKA SKÁLDKONU
Ljóð dagsins eru eftir ljóðskáldið Ewa Lipska en hún er eitt þekktasta skáld Póllands. Ewa fæddist í Kraká í Póllandi 8. október árið 1945. Hún byrjaði ung að yrkja, fékk birt eftir sig ljóð 16 ára en fyrsta ljóðabók hennar kom út árið 1967. Síðan hefur hún sent frá sér yfir þrjátíu verk, einkum ljóðabækur en einnig leikrit og skáldsögu.
Ewa Lipska kom hingað til lands til að vera á Bókmenntahátíð í Reykjavík árið 2013 og í kjölfarið komu út fyrstu þýðingarnar á ljóðum hennar, á vegum ljóðaverkefnisins ORT: Ljóð frá Íslandi/Ljóð frá Póllandi.
Þýðandi ljóðanna sem hér birtast er Olga Holownia. Olga fæddist árið 1967 en hún kom til Íslands árið 1999 til þess að læra íslensku. Hún hefur verið ötul við að kynna pólskar bókmenntir fyrir Íslendingum og sömuleiðis íslenskar bókmenntir fyrir Pólverjum. Olga ritstýrði úrvali ljóða eftir Ewa Lipska, Neyðarútgangur: Ljóðaúrval 1967-2015, ásamt því að vera einn af þýðendunum.
Þess má geta að Olga Holownia var tilnefnd ásamt Áslaugu Agnarsdóttur, Braga Ólafssyni, Magnúsi Sigurðssyni og Óskar Árna Óskarssyni, fyrir þýðinguna á ljóðasafninu þegar það kom út árið 2016.
Ljóð Ewa Lipska, hér fyrir neðan, eru tekin úr ofangreindri bók en upphaflega birtist ljóðið „Augnabliksgáleysi“ í Annars staðar árið 2005 og „Ég segi við land mitt“ í Endurómi árið 2010.
Augnabliksgáleysi
Ljóðskáld eru ekki tl.
TIl er aðeins augnabliksgáleysi.
Orðaleikur á fjölfarinni akbraut.
Ef ljóð dúkkar upp
fyrir slysni.
(bls. 93)
Ég segi við land mitt
Ég segi við landið mitt:
flyttu
farðu burt.
Vertu útlendingur
smátíma.
Snúðu svo aftur heim
og sestu að.
Hugleiddu allt þetta
einu sinni enn.
Fangaðu þig
á flugi.
(bls. 99)