SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir10. mars 2023

MARGT SPENNANDI Á HUGVÍSINDAÞINGI Í DAG OG Á MORGUN

Í dag hefst árlegt Hugvísindaþing Háskóla Íslands og stendur frá hádegi í dag og fram á eftirmiðdag á morgun. 

Ýmislegt sem tengist sögu og bókmenntum kvenna verður til umræðu á þinginu og hér verður bent á nokkur dæmi en við lesa má sér til um einstaka málstofur og fyrirlestra á heimasíðu þingsins.

 

Í dag kl. 13:15 hefst málstofa um Hetjur, kreppur og heimsveldi og þar flytur Vera Knútsdóttir bókmenntafræðingur fyrirlestur sem hún kallar "Kreppukvenhetjur og nostalgía í hrunbókmenntum íslenskra kvenrithöfunda" og hún lýsir svona:

 

Í erindinu fjalla ég um hugmyndina um kreppukvenhetjuna (e. recessionnista) sem bókmenntafræðingar skilgreina sem söguhetju hrunbókmennta; skáldsagna sem komu út á tímabilinu eftir fjármálahrunið 2008 og takast á við atburðina. Kreppukvenhetjan endurspeglar hrun vestrænnar bankakarlmennsku og leiddi til þess að konur fengu tækifæri til að láta að sér kveða og taka við stjórninni, tímabundið. En hvernig lítur þessi kreppukvenhetja út í íslensku samhengi? Í erindinu mun ég velta því fyrir mér með því að rýna í tvær hrunbækur íslenskra kvenhöfunda; Samhengi hlutanna eftir Sigrúnu Davíðsdóttur og Jarðnæði eftir Oddnýju Eir Ævarsdóttur. Í skáldsögu Sigrúnar kynnumst við rannsóknarblaðakonunni Huldu sem rannsakað hefur fjármálaglæpi íslenskra athafnamanna. Jarðnæði er aftur á móti sjálfsævisögulegt verk þar sem höfundur skrásetur viðbrögð sín við fjármálakreppunni, sem einkennast meðal annars af uppbyggilegri nostalgíu og vistfemínísku endurliti til eldri sjálfbærari tíma.

 

Í sömu málstofu flytur Gunnþórunn Guðmundsdóttir, prófessor í almennri bókmenntafræði, áhugvert erindi um innflytjendur:

 

Innflytjandinn sem hetja var algengt mótíf í minningabókum innflytjenda í Bandaríkjunum um þarsíðustu aldamót. Hinn verðugi innflytjandi kemur allslaus til nýja heimsins og sigrar hann. Þessi hetjumynd birtist gjarnan í því að innflytjandanum tekst að losa sig við fortíð sína – gamla landið, tungumál þess og menningu – og þessa hugmynd má enn sjá í pólitískri umræðu um innflytjendur. Í skoðunum sem þar birtast má gjarnan sjá kröfu um það að innflytjandinn segi skilið við fortíð sína og endurfæðist í nýjum heimi (á meðan Íslendingafélög í útlöndum halda Þorrablót). Í þessum fyrirlestri verður velt upp spurningunni um hvers konar gleymsku er krafist af innflytjandanum? Hvers konar rof verður til milli fortíðarinnar og núsins og hvernig reyna höfundar að brúa bilið sem til verður? Rýnt verður í þau flóknu viðhorf til fortíðarinnar sem birtast í verki Mary Antin, The Promised Land (1912), og einnig horft til fólksflutninga á okkar tímum og möguleikanna á því að hafa fortíðina með sér í farteskinu.

 

Á sama tíma og málstofan um Hetjur, kreppur og heimsveldi fer fram önnur málstofa sem beinir sjónum að Austurlandi sem efnivið rannsókna. Þar mun sagnfræðingarnir Erla Dóris Halldórsdóttir og Sigríður Matthíasdóttir beina sjónum að kvennasögu. Erla Dóris hefur yfirskriftina Heilbrigði kvenna í Múlasýslum fyrr á öldum og er lýst svona:

 

Í fyrirlestrinum verður fjallað um  heilbrigði kvenna í Múlasýslum fyrr á öldum. Einkum verður sjónum beint að konum sem lentu í lífsháska við fæðingar og afdrifum þeirra. Á árunum 1787– 1910 (á 123 árum) létust 93 konur af barnsförum í Múlasýslum, 52 í Norður-Múlasýslu og 41 í Suður-Múlasýslu. Þetta voru ungar konur í blóma lífsins sem dóu frá ungum börnum og eiginmönnum. Það gat valdið eftirlifendum miklum erfiðleikum. Nýfædd börn mæðra sem dóu frá þeim nokkurra daga gömlum voru í lífshættu við fráfall móðurinnar og samkvæmt rannsóknum voru lífslíkur þeirra aðeins tvö ár.   

Því hefur verið haldið fram að fyrr á öldum hafi mæðradauði verið algengur hér á landi. En var það svo? Hugtakið mæðradauði er notað þegar mæðurnar látast 42 dögum eftir barnsburð. Fjallað verður um konurnar í Múlasýslum sem dóu eftir barnsburð og þær heimildir sem geyma nöfn þeirra og dánarmein. Þær heimildir eru afmarkaðar og af skornum skammti. 

 

Sigríður Matthíasdóttir fjallar um verslunarrekstur Pálínu Waage athafnakonu á Seyðisfirði og setur "hann í samhengi við kynjasögulega umræðu um athafnakonur í sagnfræðirannsóknum. En Pálína lét eftir sig persónulegar heimildir, m.a. dagbækur, sem gera það mögulegt að rannsaka starfsemi hennar til hlítar".

 

 

Í fyrramálið, laugardaginn 11. mars, kl. 10 verður varpað fram spurningunni: "Hvað getur arfleifð fatlaðrar konu sem lifði lungann úr 20. öldinni sagt okkur um samfélag aldarinnar?" Mástofan fjallar um Bíbí í Berlín – Bjargey Kristjánsdóttir  (1927–1999) – sem ritaði sjálfsævisögu sína sem gefin var út í ritröðinni Sýnisbók íslenskrar alþýðumenningar á síðasta ári. Þrír fyrirlestrar verða haldnir um Bíbí og til dæmis fjalla sagnfræðingarnir Guðlaug Dröfn Gunnarsdóttir og Sólveig Ólafsdóttir um brúðusafn Bíbíar:

 

Bíbí í Berlín skildi eftir sig umfangsmikið brúðusafn (yfir 100 brúður) sem nú er í eigu Þjóðminjasafns Íslands. Viðfangsefni þeirrar rannsóknar sem hér er byggt á felst í skráningu safnins, álitamála því tengdu og uppsetningu sýningar um Bíbí og tilveru hennar. Dúkkusöfnun fólks er ekki óalgeng og á sér mismunandi hliðar og uppruna. Bíbí dreymdi um að eignast eiginmann og börn – fjölskyldu. Í ævisögu sinni skrifar hún um drauma sem hefðu getað orðið. Draumarnir fengu að einhverju leyti útrás í fatasaum á dúkkurnar og garðyrkju. Þessa iðju stundaði hún ekki síst á meðan hún dvaldi á elliheimili sem ung manneskja og fann með því lífi sínu og draumum farveg.

 

Kl. 13:15-17 á morgun verður síðan sjónum beint að sjálfri Maríu mey ímynd hennar og stöðu, sérstaklega í íslensku samhengi. Til að mynda mun Sigríður Guðmarsdóttir guðfræðingur halda fyrirlestur með yfirskriftinni: "Heilaga móðir alls sem er“: Guðsmóðir sálmabókarinnar í ljósi femínískra og hinsegin fræða:

 

Ný sálmabók íslensku þjóðkirkjunnar kom út í nóvember síðastliðnum. Þar má finna á annan tug sálma sem vísa til Maríu, móður Jesú. Maríufræði er hin guðfræðilega rannsókn á Maríu, tengslum hennar við guðdóminn og erindi hennar við manneskjur og annað líf. María hefur lengi verið femínískum guðfræðingum hugleikin og sú guðfræðihefð hefur ýmist gagnrýnt hugmyndir um Maríu sem hina dygðugu, auðmjúku móður eða lyft henni upp sem mögulegri byltingarhetju. Hinsegin guðfræði hefur einnig sýnt hugmyndum um Maríu sem hina fullkomnu kvenímynd athygli. Í erindinu er fjallað um stöðu Maríu í íslensku þjóðkirkjunni og hvers konar Maríufræði komi fram í sálmaiðkun þjóðkirkjunnar.

 

Margt fleira áhugavert og spennandi er að finna á þinginu, bæði í dag og á morgun. Til dæmis málstofur um Grýlu, um listir, um umhverfismál og um bókmenntagagnrýni - svo fátt eitt sé nefnt.