SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir15. maí 2023

YRKJUR, NÝ SKÁLDAKOLLEKTÍVA

YRKJUR er kollektíva ungra kvenna sem var stofnuð snemma á árinu 2022. Markmið þeirra er að skapa samfélag þar sem ungir höfundar geta komið saman til þess að læra hver af öðrum og koma sér á framfæri, hvort sem er á upplestrarkvöldum, í vinnustofum eða með bókaútgáfu. Hjá Yrkjum er pláss fyrir öll sem vilja vera með og von stofnenda er að hér sé tækifæri fyrir fleiri raddir að hljóma og til að efla umræðu um skáldskap. 

YRKJUR eru nú að hleypa af stokkunum Ljóðakvöldum í Mengi. Markmiðið er að halda slík kvöld á tveggja mánaða fresti, að minnsta kosti út þetta ár. Eina undantekningin á því er júlí því í stað upplestrarkvöldsins verður haldin vinnustofa þann 21. júní á sama stað.

Upplestrarkvöldunum er ætlað að búa til rými fyrir ungskáld úr öllum áttum til að koma fram, tjá sig, prófa sig áfram og kynnast öðrum sem eru að gera það sama. Saman kynnumst við nýjum hugmyndum, stílum, umfjöllunarefnum og nálgunum á þau. Hér hafa öll tækifæri til að vera með og vinna að sameiginlegu markmiði, að halda skáldskapnum í umræðunni og gera skrifin aðgengileg fyrir ungmenni. Þeir sem hafa áhuga á að vera með - eða hafa aðrar spurningar - geta hafa samband við Yrkjur á Instagram, Facebook eða í tölvupósti. 

Stofnendur YRKJA eru fimm konur:

 

 

Ása Þorsteinsdóttir. Hún ólst upp í afskekktri sveit út við Héraðsflóa og sækir oft innblástur í náttúruna og sveitalífið. Sex ára ákvað hún að hún ætlaði að verða skáld. Síðan þá hefur hún tekið virkan þátt í ljóðlistarlífi Austurlands og lesið upp ljóð fyrir sveitunga sína við ýmis tilefni. Árið 2016 birtust ljóð eftir hana í ljóðasafninu Bók sem allir myndu lesa. Ása stundar nú kennaranám við Menntavísindasvið Háskóla Íslands.

 

Eyrún Úa Þorbjörnsdóttir. Hún hefur mikinn áhuga á ýmiss konar listsköpun. Henni hefur fundist gaman að skrifa frá því að hún var unglamb en við fimmtán ára aldur uppgötvaði hún ljóðlistina og í kjölfarið færðust skrifin í aukana. Eyrún Úa dregst aðallega að ljóðum, prósaljóðum og smásögum og sérhæfir sig aðallega í þeim. Árið 2019 opnaði hún skúffuna og las í fyrsta sinn á upplestrarkvöldi á vegum Jönu Bjargar. Hún hefur fengið efni birt í ýmsum ritum, m.a. Leirburði, Valentínus getur lamið fast og Beneventum. Hún er nú myndlistarnemi við Listaháskóla Íslands.

 

Jana Björg Þorvaldsdóttir. Hún hefur tekið virkan þátt í menningarlífi Reykjavíkur. Ritlistin hefur lengi átt hug hennar, en hún hefur gefið út ljóðabækurnar Varúð hálka og Fráblásinn dúnheili. Seinna bættist við áhugi á ritstjórn þegar Jana tók við stjórn Beneventum, skólablaði Menntaskólans við Hamrahlíð. Síðan hefur hún setið í ritstjórn Framhaldsskólablaðsins og Leirburðar, tímarits bókmenntafræðinema við Háskóla Íslands. Þar að auki hefur hún haldið fjölda ljóðakvölda, tekið þátt í ritlistarsmiðjum og unnið að alls konar verkefnum sem snúa að ritlist, til dæmis Orðskjálfta 2022 og nú Yrkjum. Jana Björg stundar nú nám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

 

Ragnheiður Guðjónsdóttir. Hún uppgötvaði veröld ritlistarinnar fremur seint en þrátt fyrir það hefur sagnaheimurinn sem slíkur alltaf heillað hana, hvort sem um ræðir þjóðsögur eða sögur sagðar yfir rjúkandi kaffibolla með rjóma. En sagnaheimurinn virðist engin endimörk hafa og segja má að Ragnheiður sé að bæta upp öll lestrarlausu árin í gegnum tíðina með því að lesa, jafnvel sporðrenna sögum, ljóðum og hvaðeina. Ragnheiður hóf nám í almennri bókmenntafræði haustið 2021 og eftir flutninga til Reykjavíkur fór hún að reyna enn meir fyrir sér í ritlistinni og segja skilið við skúffuna. Það gerði hún meðal annars með því að sækja nokkur ritlistarnámskeið. 

 

Steinunn Kristín Guðnadóttir hefur frá blautu barnsbeini dreymt um að gerast rithöfundur. Sem barn var hún sílesandi og hefur frá fjórtán ára aldri skrifað jöfnum höndum á ensku og íslensku. Hún hefur mikinn áhuga á tungumálum og dreymir um að geta tjáð sig á sem flestum málum. Steinunn hefur birt ljóð og prósa í Valentínus getur lamið fast og Leirburði. Henni finnst skemmtilegast að skrifa prósa en hún hefur nýlega verið að spreyta sig á ljóðlist, þá sérstaklega enskum sonnettum, sem eru hennar eftirlætis ljóðform. Steinunn er nú í námi við Háskóla Íslands í ensku og frönskum fræðum.