SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir28. maí 2023

STARFSLOK JÓRUNNAR SIGURÐARDÓTTUR

Rétt í þessu tilkynnti Jórunn Sigurðardóttir að síðasti þátturinn af Orðum um bækur væri farinn í loftið, þ.e. að þátturinn sem sendur var út í morgun væri sá síðasti. Jórunn hefur svo sannarlega staðið vaktina og miðlað upplýsingum um bókmenntir á rás 1 í meira en þrjá áratugi og Skáld.is þakkar henni kærlega fyrir frábært starf.

 

Árið 2013 hlaut Jórunn Verðlaun Jónasar Hallgrímssonar, sem veitt eru á degi íslenskrar tungu, fyrir framúrskarandi umfjöllun um íslenskar og erlendar bókmenntir í Ríkisútvarpinu og var hún svo sannarlega vel að þeim heiðri komin.

 

Um langt árabil hefur Jórunn einnig fjallað um tilnefningar til Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs og von er á að hún geri það enn einu sinni í haust. Sú innsýn sem hún hefur þannig gefið inn í samtímabókmenntir Norðurlanda er ómetanleg.

 

Vonandi finna ráðamenn Ríkisútvarpsins verðuga arftaka Jórunnar til að fjalla um bókmenntir í Ríkisútvarpinu, það verður þó ekki auðvelt að feta í hennar spor. Áhugi og eldmóður hefur ætíð einkennt bókmenntaumfjöllun Jórunnar Sigurðardóttur og verður seinþakkað allt hennar starf í þágu bókmenntanna.