Jóna Guðbjörg Torfadóttir∙ 3. júní 2023
TVÖ LJÓÐ - til minnis:
Ljóðabókin til minnis: eftir Áslaugu Jónsdóttur kom út núna í lok marsmánaðar. Áslaug er bókverkakona, myndlýsir, grafískur hönnuður og rithöfundur og er hún einna þekktust fyrir margverðlaunaðar Skrímsla-bækur sínar en þetta er hennar fyrsta ljóðabók.
Ljóðabókin hefur að geyma 60 ljóð ásamt ljósmyndum eftir Áslaugu. Bókin skiptist í tvo þematengda helminga; fyrri helmingur nefnist útfiri og eru þar ljóð sem tengjast náttúru og sveit og seinni helmingur ber yfirskriftina næði og fjalla þau ljóð um borgina.
Hér á eftir fer eitt ljóð úr hvorum hluta fyrir sig:
höfuðlaus (útfiri)
í þokuloftinu
stend á því fastar en fótum
að landið
aðskilið útþandri eilífðinni
í botnlausum grámanum
sé nú hvorki fagurt né frítt
fjöllin mín höfuðlaus
reisninni styttri
standandi svona
berfættum hlíðarfótum
í hráslaganum
(bls. 15)
ófleygur dagur (næði)
vængbrotinn mávur
smýgur inn á milli sölnaðra greina
leitar skjóls í órækt og sorpi
plasti og sígarettustubbum
kvakar skerandi röddu
riðar á ryðgulum fótum
veröld hans völt og vonlaus
lánið niðurrignt pylsubrauð
við heimsendavagninn
(bls. 72)