SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 1. júní 2023

HANDHAFI NÝRÆKTARSTYRKS Í ÁR - Margrét Marteinsdóttir

Í gær hlutu tveir höfundar nýræktarstyrk Miðstöðvar íslenskra bókmennta: Margrét Marteinsdóttir og Magnús Jochum Pálsson. Skáldverk Margrétar er handrit að skáldsögunni  Grunnsævi og hljóðar umsögn bókmenntaráðgjafa svo:

Grunnsævi er marglaga skáldsaga um 49 ára konu sem liggur banaleguna á elliheimili í Reykjavík. Áleitin frásögn um áföll og sársauka sem halda áfram að erfast milli kynslóða „þar til einhver stoppar í gatið“. Teflt er fínlega saman djúpri löngun til að ná stjórn á lífi sínu og getuleysi til að endurskrifa örlögin. Blærinn á sögunni er grípandi, stíllinn raunsæislegur og einstaklega myndrænn.

 

Árlega veitir Miðstöð íslenskra bókmennta Nýræktarstyrki fyrir skáldverk höfunda sem eru að stíga sín fyrstu skref á ritvellinum, óháð aldri, til að hvetja þá til frekari dáða á þeirri braut. 57 umsóknir um Nýræktarstyrki bárust að þessu sinni og rötuðu inn á borð Guðrúnar Steinþórsdóttur og Sölva Sveinssonar. Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra afhenti styrkina í Gunnarshúsi og nam hvor styrkur hálfri milljón króna.

Skáld.is óskar Margréti innilega til hamingju með styrkinn.

 

Forsíðumynd er sótt af vefsíðu Miðstöðvar íslenskra bókmennta. Á myndinni eru Lilja Dögg Alfreðsdóttir menningarráðherra, Margrét Marteinsdóttir, Magnús Jochum Pálsson og Hrefna Haraldsdóttir.