ELDKLÁRAR OG EFTIRSÓTTAR SENDA FRÁ SÉR ÓUMBEÐIN ÁSTARBRÉF
ELDKLÁRAR OG EFTIRSÓTTAR nefnist "sjálfstæður hópur grínista með píkur sem sérhæfa sig í spuna", eins og hópurinn lýsir sjálfum sér á facebook-síðu sinni, en nú færir hópurinn út kvíarnar og gefur út bókina Óumbeðin ástarbréf.
Hópinn skipa að sjálfsögðu eldklárar og eftirsóttar konur, þær Gunnlöð Jóna Rúnarsdóttir, Gríma Kristjánsdóttir, Heiða Vigdís Sigfúsdóttir, Laufey Haraldsdóttir, Sunna Björg Gunnarsdóttir og Ebba Sig. Þær koma úr ýmsum áttum en eiga það sameiginlegt að vera skapandi og stofnuðu hópinn formlega fyrir tveimur árum. Í viðtali við Gunnlöðu Jónu í Fréttablaðinu sáluga, 17. febrúar síðastliðinn segir hún:
Í hópnum eru til dæmis leikkonur, uppistandarar, ljósmyndari, rithöfundur og keramiklistakona. Við erum svo með bakgrunn í alls konar, eins og lögfræði og hagfræði svo einhver óvanaleg dæmi séu tekin.
Í Óumbeðnum ástarbréfum eru, eins og nafnið gefur til kynna, ástarbréf eftir alla meðlimi hópsins. Í ofannefndu viðtal segir Gunnlöð Jóna:
Bréfin koma öll frá okkur sjálfum, en þau eru rituð til ásta sem við höfum átt, þráð eða eigum jafnvel núna. Öll bréfin eru sönn, þau eru ekkert grín. Sum eru auðvitað fyndin, en mörg eru líka sorgleg og önnur sjóðheit. Í bókinni köfum við í allar tilfinningar sem til eru [...] Okkar óumbeðnu ástarbréf eru alls konar. Mörg hver eru bréf sem við hefðum kannski viljað senda á einhverjum tímapunkti en slepptum af einhverjum ástæðum. Sum bréfin langar okkur ekki endilega að birta en ögrum okkur með því að gera það. Okkur langar að berskjalda okkur og tilfinningar okkar því rétt eins og konur í gríni fá tilfinningar oft ekki nægilegt pláss.
Í tilefni af útgáfu bókarinnar halda ELDKLÁRAR OG EFTIRSÓTTAR útgáfuhóf á Reykjavík Marina á Mýrargötu á morgun, 15. júní og hefst fjörið kl. 17. Einnig standa þær fyrir upplestrarkvöldi í Listasmiðju Slippbarsins á þjóðhátíðardaginn 17. júní og hefst upplesturinn þar einnig kl. 17. Þá má taka fram að textabrot úr bókinni verða til sýnis í Listasmiðju Slippbarsins frá 15. júní til 15. júlí og þar geta gestir lesið um ástarþrá, brotin hjörtu og bræði, losta, girnd og greddu.
Allir eru velkomnir á upplesturinn meðan húsrúm leyfir. Skáld.is óskar ELDKLÁRUM OG EFTIRSÓTTUM til hamingju með bókina!