SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir16. ágúst 2023

HANDTÖSKUR OG HRAÐLESTIR - ALLT UM KÍNA

Stórveldið Kína á að baki mörg þúsund ára menningarsögu sem er í senn heillandi og hrikaleg. Allt stefnir nú í að Kína verði stærsta efnahagsveldi heims. Nútímavæðing er þar á fullu stími og Kínverjar setja mark sitt á umheiminn í æ ríkari mæli. Í nýlegri bók um Kína er m.a. rýnt í sögu og menningu, viðskiptahætti, myndlist og þjóðarsál. Höfundur bókarinnar, Rót - allt sem þú þarft að vita um Kína og meira til, er Lína Guðlaug Atladóttir sem hefur kynnt sér land og þjóð um árabil og komið margsinnis til landsins. 

Bókin er sérlega skemmtileg aflestrar, kaflar eru stuttir og vekja áhuga. ObservantPress gefur út en einkarétt á Lína Guðlaug. Uppsetning texta, myndir og hönnun eru til fyrirmyndar og gera bókina sérlega aðgengilega (örfáar málfarsvillur í textanum).

Gaman er að lesa um t.d. stjórnarhætti í landinu í gegnum árþúsundir, sérlega kröfuhart skólakerfi, einsýna einræðisherra og kínverska ferðamenn, ilmandi te og ópíum, handtöskur og merkingu þeirra fyrir sjálfsmynd og stétt, ótal ný háhýsi og sneggstu hraðlestir í heimi. Miklar byggingaframkvæmdir eru í sífellt í gangi, litlum þorpum er hiklaust rutt úr vegi og byggðar nútímalegar borgir í þeirra stað.

Margar áskoranir bíða Kínverja, mannfjöldinn í landinu er gríðarlegur eins og kunnugt en skortur er á húsnæði. Þjóðin eldist hratt og ekkert velferðarkerfi er við lýði. Þá er misskipting auðs stórt vandamál, margir Kínverjar eru fáránlega ríkir en milljarðar búa í örbirgð. 

Lína Guðlaug er viðskiptafræðingur og Austur-Asíufræðingur frá HÍ og Fudan-háskólanum í Shanghai. Starfsferill hennar spannar margvísleg stjórnunarstörf á sviði kynningar- og markaðsmála. Rót er fyrsta bók hennar. Skemmtileg og fræðandi lesning.