SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir 4. september 2023

VERÐLAUNALJÓÐ: Draumar hefja sig til flugs á heiðinni

Í gær voru úrslit Ljósberans 2023 tilkynnt og hlaut Garðar Baldvinsson 1. og 2. verðlaun en þriðju verðlaun kom í hlut Önnu Bjargar Hjartardóttur fyrir ljóðið Draumar hefja sig til flugs á heiðinni. Þá hlaut Hrefna Ósk Maríudóttir sérstaka viðurkenningu fyrir ljóð hennar sem þótti athyglisvert.
 
Anna Björg gaf Skáld.is góðfúslegt leyfi til að birta ljóð hennar:
 
 
DRAUMAR HEFJA SIG TIL FLUGS Á HEIÐINNI 
 
Kviknar neisti
bærist andgift 
 
yfirtekur
í takt sjávarfalla 
flóðs og fjöru
 
Drengur leggur hlustir
við suðurnesjarokkið
og suðurnesjarokið
fyllir vit með viti 

Ljósblik hugmynda lýsir upp  
tilveruna og unga sál 
örlög verða til   
 
Orka tveggja heima  
brúar skil báru og skers
flekar jarðar aðskilja bil milli heima  
bera hróður útvarða Atlandshafs um heim  
 
Tónar og taktur nesjanna 
fæðir draum
í hjartans öra slætti 
drengs sem lifnar allur við  
í litlu húsi út í garði 
 
og aðeins eldri stúlka syngur 
héðan liggja leiðir til allra átta  
 
Draumar hefja sig til flugs á heiðinni