SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 7. september 2023

Á RAUÐUM SOKKUM Í HÁLFA ÖLD

Kvennasögusafn á Landsbókasafni og RIKK – Rannsóknastofnun í jafnréttisfræðum við Háskóla Íslands standa fyrir málþingi um Rauðsokkahreyfinguna sem verður haldið í dag fimmtudaginn 7. september 2023, kl. 13-16:30 í Þjóðminjasafni Íslands.
 
 
 
 
Meðal umfjöllunarefna á málþinginu eru áhrif Rauðsokkahreyfingarinnar á íslenskt jafnréttissamfélag, jafnréttisbaráttu kynjanna, menningarlegt landslag og framsetning sögulegs efnis sem snýr að jafnréttisbaráttunni.
 
DAGSKRÁ
 
 
RAKEL ADOLPHSDÓTTIR: Að rannsaka og miðla eigin sögu

UNNUR BIRNA KARLSDÓTTIR: Rödd sem skipti máli. Rauðsokkahreyfingin og lagasetning um þungunarrof 1975

ANNADÍS GRETA RÚDÓLFSDÓTTIR: Frá Rauðsokkum til nýfrjálshyggju. Femínismi og móðurhlutverkið í prentmiðlum 1970-1979 og 2010-2019

SILJA BÁRA R. ÓMARSDÓTTIR: Að breyta samfélagi. Baráttumál Rauðsokka
 
KAFFIHLÉ
 
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR: Reynsla annarra. Hlutverk bókmennta í vitundarvakningu Rauðsokkahreyfingarinnar

KARÓLÍNA RÓS ÓLFSDÓTTIR: Teikningar Rauðsokka. Nýtt og lánað
 
PALLBORÐ MEÐ FULLTRÚUM RAUÐSOKKAHREYFINGARINNAR: Elísabet Gunnarsdóttir, Gerður G. Óskarsdóttir, Guðrún Hallgrímsdóttir, Guðrún Ágústsdóttir og Kristín Ástgeirsdóttir.

Pallborðsstjórn: Rósa Magnúsdóttir
Málþingsstjórn: Elín Björk Jóhannsdóttir
 
 
Í kynningu segir:
 
Þann 24. apríl 1970 hittust konur fyrst á rauðum sokkum og tóku þátt í undirbúningi fyrir kröfugöngu 1. maí þar sem þær kröfðust jafnréttis kynjanna. Á baráttuspjöldum þeirra stóð meðal annars „vaknaðu kona“ og „konur nýtum mannréttindin“. Þá báru þær á herðum sér Venusarstyttu með borða sem á stóð „manneskja en ekki markaðsvara“, eins og frægt er orðið. Með þessari aðgerð var tónninn sleginn og við tók rúmlega áratuga barátta Rauðsokkahreyfingarinnar fyrir bættum kjörum kvenna í íslensku samfélagi. Þann 7. september sama ár fundaði 20 kvenna framkvæmdanefnd hreyfingarinnar í fyrsta sinn og ákváðu skipulag og stefnu hennar.
 
Í undirbúningi fyrir 50 ára afmæli Rauðsokkahreyfingarinnar komu fulltrúar hennar á fund Kvennasögusafns og Landsbókasafns með það í huga að gera skjala- og upplýsingavef um störf hennar. Úr varð rúmlega 30.000 orða vefur með 1.000 stafrænum skjölum sem var opnaður formlega þann 24. október 2022, á sjálfan kvennafrídaginn en hreyfingin átti kveikjuna að honum á sínum tíma. Vefurinn var settur fram með áherslum og í orðum fulltrúa Rauðsokkahreyfingarinnar undir leiðsögn fagstjóra Kvennasögusafns. Vefnum er ætlað að auka söguvitund almennings um þetta umbrotatímabil, nýtast í kennslu á nokkrum skólastigum sem og að vera hvatning fyrir fræðilegar rannsóknir. Á málþinginu eru slíkar rannsóknir í forgrunni og fræðifólk hvatt til að nýta vefinn til að varpa nýju ljósi á baráttu hreyfingarinnar.