SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 6. október 2023

FYRSTA SKÁLDSAGA NÖNNU

Valskan er fyrsta skáldsaga Nönnu Rögnvaldardóttur, sem áður hefur skrifað fjölda frábærra bóka um matargerð og matarsögu sem til eru á hverju myndarheimili. Skáldsöguna byggir hún á lífi formóður sinnar, Valgerðar Skaftadóttur, sem fædd var árið 1762. Undanarið hefur þeim bókum fjölgað þar sem fjallað er um konur fyrri alda, .þær dregnar fram úr djúpi gleymskunnar og  saga þeirra skráð bæði með heimildum og skáldskap.

Prestsdóttirin Valka á sér ýmsa drauma. Helst af öllu langar hana að sigla til Kaupmannahafnar á vit ævintýranna, spássera um steinlögð stræti, sjá hallir og gullturna og hefðarfólk með hárkollur aka um í glæsivögnum. Að öðrum kosti vill hún verða auðug húsfrú á höfuðbóli og hafa margar vinnukonur. En náttúran grípur harkalega í taumana – bæði sú sem sýnir mátt sinn með veðurofsa, eldgosum og harðindum en líka sú sem býr innra með Völku, kveikir ástríðu og losta og tekur stundum á sig mynd slóttugrar skepnu; völskunnar. Sumir draumar Völku eiga eftir að rætast, aðrir verða að engu en þegar upp er staðið leynist gæfan þó kannski þar sem hana grunaði síst, segir í tilkynningu frá Forlaginu. Þetta er grípandi saga um harða lífsbaráttu og þrautseigju og auðvitað ástina sem sér til þess að veröldin snýst. 

Upprunalega ætlaði Nanna að skrifa einhvers konar heimildarit eða ævisögu en það rann fljótt upp fyrir henni að hún yrði að gera tilraun til að skrifa sína fyrstu skáldsögu. Lesendur þekkja röggsemi Nönnu og nýjungagirni í umfjöllum um mat svo það er tilhlökkunarefni að rýna í skáldsöguna og nasla eitthvað gott á meðan.

Smelltu á myndina til að hlusta á brot úr fyrsta kafla bókarinnar.

Mynd af vef Forlagsins