AMMA, HVERT FARA FUGLARNIR Á NÓTTUNNI?
Oddbjörg Ragnarsdóttir gefur nú út fyrir jólin skemmtilega barnabók sem vert er að skoða. Þar vinna saman Harpa sonardóttir Oddbjargar og hún að sögu sem fjallar um lífið og hverfuleikann. Vitum við hvar fuglarnir sofa?. Oddbjörg skrifar og Harpa myndskreytir. Oddbjörg segir svo:
Barnabarnið, Harpa Stefanía myndhöfundur, var innblástur að bókinni. Einn daginn þegar hún var í heimsókn hjá mér (þá sirka fjögurra ára), fór hún að skoða fuglana úti í garði, spurði alls konar spurninga og í framhaldinu vaknaði þessi hugmynd.
Textinn fór á blað og síðan í hvíld í ansi langan tíma. Ég reyndi að teikna sjálf, en það gekk ekki sérlega vel, svo kviknaði þessi hugmynd einn daginn, að nota teikningarnar hennar Hörpu. Hún var oft að teikna eitthvað þegar hún var hjá mér í heimsókn og ég geymdi þær sem hún fór ekki með heim. Teikningunum fjölgaði og ég fór að lauma að óskum um að teikna til dæmis stelpu í rólu og fugla og fólk og fyrr en varði var ég komin með gott úrval af teikningum, sem á endanum enduðu í bókinni. Fyrstu myndirnar teiknar hún 4-5 ára og þær síðustu teiknar hún í sumar, þá orðin 8 ára. Ég fann svo útgefanda sem vildi gefa bókina út. Gudda Creative, (Gudda.is). Allar bækur sem þessi útgefandi gefur út eru prentaðar á Íslandi, hjá Prentmet/Oddi. Eigandi Gudda.is er Guðný Anna Annasdóttir. Hún byrjaði á að gefa út eigin bækur fyrir börn um þau Lindísi og Ljóna og nú eru bækurnar orðnar 10 talsins. Í ár er hún að gefa út tvo nýja höfunda, önnur bókin er eftir Jón Fannar Árnason, sem er að gefa út bókina Ungi Stuðningsmaðurinn og hin er eftir mig. (Má finna þær allar á Gudda.is)
Svo þannig varð þessi draumur að veruleika, að barnabókin liti dagsins ljós á prenti, þó ferlið tæki nokkur ár, frá því að textinn varð til og allar myndir tilbúnar.
Viðtökurnar hafa verið mjög góðar á bókinni og er fyrsta prentun þegar uppseld hjá útgefanda og önnur prentun kom út í liðinni viku.
Við óskum þeim Oddbjörgu og Hörpu innilega til hamingju með þetta fallega og gefandi samstarf.