SVEINDÍS JANE - Saga af stelpu í fótbolta
Það er einstaklega ánægjulegt þegar jafn flott fyrirmynd og Sveindís Jane er fyrir ungar stúlkur ræðst í að segja sögu sína af því hvernig hún varð sú fótboltastjarna sem hún er í dag.
Sveindís Jane er leikmaður Vfl Wolfsburg í Þýskalandi og íslenska landsliðsins. Hún hefur þetta að segja um bókina:
„Það er einlæg von mín að bókin sem ég skrifaði ásamt útgefanda mínum verði börnum hvatning til að láta að sér kveða í íþróttum. Ég sem dæmi hóf ekki að æfa fótbolta fyrr en ég var 9 ára. Saga mín í fótboltanum er saga stelpu af Reykjanesi sem var send í markið þar sem enginn hafði trú á mér úti á vellinum. Það átti eftir að breytast og fljótlega eignaðist ég draum um að ná langt í heimi knattspyrnunnar.“
Bókin Sveindís Jane -saga af stelpu í fótbolta kom út fyrir fáeinum vikum og rauk strax á metsölulista Pennans-Eymundsson. Hún er ætluð börnum en er auðvitað einnig fyrir öll sem eru áhugasöm um efni bókar. Verkið er kynnt svo á vef Forlagsins:
Sveindís Jane Jónsdóttir er nú í röð fremstu fótboltakvenna heims. Þessi lykilmanneskja í íslenska landsliðinu hafði þó meiri áhuga á að renna sér á hjólabretti en fótbolta þegar hún var að alast upp á Reykjanesinu en dag einn barst henni bréf.
Sagan af því þegar hún fann fótboltann og uppgötvaði að hún hljóp hraðar en hinir á vellinum er leiftrandi skemmtileg. Hin stórkostlega móðir frá Gana og hinn rólyndi faðir styðja hana með ráð og dáð á vegferð hennar frá því að hún er send í markið fram að því að henni er boðið að mæta á landsliðsæfingu. Hér er á ferð saga sem hittir alla fótboltaunnendur í hjartastað.