Háð og snoppungar
Í Morgunblaðinu í dag er fjallað um Bókmenntasögu Jóns úr Grunnavík (1705−1779), sem skrifuð var snemma á 18. öld. Í síðasta hluta bókarinnar er umfjöllun um skáld- og lærdómskonur en Jón var fyrstur til að fjalla um konur í slíku riti.
„Ei þykir mér vert að annotera þær sem ei hafa gjört annað en nokkrar liðlegar einstaka vísur, heldur þær sem í bóklegum kúnstum eður skáldskap hafa yfirgengið almennar konur og verið karlmönnum jafnvægar“ (229). Það er ekki nóg að hafa ort vísu til að komast í bókmenntasöguna en nægir að hafa ort einn sálm. Það gerði Þóra Tómasdóttir (17. og 18. öld); „einn sálm um útför Ísraelsfólks af Aegypto“ sem enginn veit frekari deili á en fram kemur að Þorvaldur einhver Magnússon hafi hæðst að þeim sálmi. Í greininni í Mbl. eru m.a. nefndar hinar fornu skáldkonur Sigga skálda og Steinunn Finnsdóttir sem vissulega er að finna í skáldatalinu okkar.
Þá er í lok greinarinnar í Morgunblaðinu skemmtileg saga úr Bókmenntasögu Jóns af Rannveigu Þórðardóttur frá Strjúgi (uppi á 17. öld). Skáldið Þórður lagðist útaf til að yrkja og þegar hann reis úr rekkju eftir að hafa ort 15 rímur Rollants, á Rannveig að hafa slengt fram þeirri sextándu, „meðan hún hrærði í grautarkatli, en faðirinn Þórður að henni heyrðri, slegið hana snoppung í meining sem hún hafi gjört skömm til sín en þetta er líkast fabulae...“ (225). Boðskapur sögunnar? Skáldskapariðja er aukageta hjá konum, og standi þær körlum á sporði eða framar en þeir fá þær að finna fyrir því!