SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 8. desember 2023

SKÁLDSKAPUR OG FRÆÐI UM HERNÁMSÁRIN OG ÁSTANDIÐ

 

Ekki ná allir að vekja mikla athygli á sér í bókabókaflóðinu en ein þeirra sem sendir frá sér skáldsögu í ár er Hrafnhildur Valgarðsdóttir sem gaf út skáldsöguna Söngur Súlu árið 2013 og sendir núna frá sér framhald þeirrar sögu: Söngur Súlu 2: Ást í mörgum myndum.

Hrafnhildur er enginn nýgræðingur á sviði skáldskaparins; hennar fyrsta bók, barnabókin Kóngar í ríki sínu, kom út 1986 og ári síðar hlaut Hrafnhildur fyrstu verðlaun í samkeppni sem Stórstúka Íslands efni til um unglingabók, í tilefni að Barnaári Sameinuðu þjóðanna 1985. Handritið sem Hrafnhildur sendi inn var Leðurjakkar og spariskór.

Fleiri barna- og unglingabækur hafa komið út eftir Hrafnhildi en Söngur Súlu var fyrsta bókin sem hún skrifaði fyrir fullorðna lesendur.

 

 

Söngur Súlu gerist á hernámsárunum og segir frá því þegar Reykjavík var að breytast í borg og fólk streymdi úr sveitum landsins til Reykjavíkur þar sem nóg var um vinnu og allt borgað í peningum.

Bókin fjallar um fólkið í bröggunum og þar á meðal ungt par, foreldra Súlu, sem flytja í hálfan Breta-bragga og hlaða niður börnum. Í viðtali við Vísi segir höfundur: „Súla er eitt af þessum „braggabörnum, [...] Örlögin valda því að heimilið leysist upp og börnin fara öll í sitthverja áttina. Súla verður munaðarlaus og lendir á flækingi, flakkar milli alls kyns heimila og þá fær lesandinn innsýn í margs konar heimili og ástandið sem ríkti á þessum árum. Ég byggi lauslega á æskuminningum mínum þótt ég hafi ýkt og skáldað mjög því ólíkt æsku Súlu þá var mín æska ljúf.“

 

Söng Súlu 2: Ást í meinum er lýst þannig af hálfu útgefenda:

 

Bókin er framhald skáldsögunnar Söngur Súlu og fjallar nú um líf hennar í höfuðborginni á árunum 1964-1966. Súla býr í húsi þar sem einnig er starfandi bókaútgáfa og þar kynnist hún heimi bókanna. Eins og áður koma ýmsar aðrar persónur við sögu ásamt skrautlegum ástarmálum þeirra.

Rithöfundurinn Benjamín býr í sama húsi og er að leggja lokahönd á mikið og merkilegt ritverk. Súla tekur þátt í baráttu Benjamíns við skriftirnar og kynnist þá um leið sjálfri sér. En hún þráir að sameinast fjölskyldu sinni á ný og þar gengur á ýmsu.

 

 

Þetta söguefni er verulega spennandi og væri óvitlaust að lesa bækur Hrafnhildar um Súlu og bók Báru Baldursdóttur, Kynlegt stríð: Ástandið í nýju ljósi, samhliða.

Bára Baldursdóttir var nýlega tilnefnd til Fjöruverðlaunanna í flokki fræðirita fyrir sína bók.

 

 

 

 

Tengt efni