SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir10. desember 2023

HAMFARIR Í BÓKMENNTUM OG LISTUM

Auður Aðalsteinsdóttir bókmenntafræðingur hefur sent frá sér fræðiritið, Hamfarir í bókmenntum og listum. Bókin er jafnframt fyrsta ritið í nýjum bókaflokki, Huldurit, sem er ritröð um náttúru í samtímabókmenntum og listum. Að þessum áhugaverða bókaflokki stendur Háskólaútgáfan í samvinnu við HULDU - náttúruvísindasetur. 

 

Í kynningu á bókinni segir: 

 

Náttúra og loftslag jarðar eru þegar farin að umbreytast vegna hamfarahlýnunar, fjöldaútrýmingar og annarra tengdra umhverfisógna. Í þessari bók er fjallað um það hvernig aukin meðvitund um þessar umhverfiskrísur og um víxlverkun allra þátta í vistkerfi okkar, mennskra og ekki-mennskra, birtist í samtímabókmenntum og -myndlist.

 

 

Auður Aðalsteinsdóttir hefur rannsakað íslenskar bókmenntir um árabil og undanfarinn áratug hafa rannsóknir hennar snúist sérstaklega um hvernig hamfarir og umhverfisógnir á borð við landlagsbreytingar hafa birst í nútímabókmenntum. Þetta nýja fræðirit er að hluta til byggt á greinum sem hún hefur birt um þetta efni en ritið er jafnframt framlag hennar til rannsóknasamstarfs á vegum ROCS, rannsóknarmiðstöðvar Háskóla Íslands og Kaupmannahafnarháskóla um haf, loftslag og samfélag, þar sem stefnt er saman sjónarhornum náttúru-, félags- og hugvísinda í því augnamiði að skapa þekkingu á vistkerfum og loftlagsbreytingum.