FARÐAPOTTAR
Þóra Andrea Nikólína Jónsdóttir
Þóra Andrea Nikólína Jónsdóttir var íslensk húsmóðir fædd árið 1813 í Danmörku. Hún var dóttir séra Jóns Jónssonar Helsingja en hann var sonur séra Jóns Jónssonar lærða í Möðrufelli. Móðir hennar var Helena Jóhanna Andrésdóttir Olsen. Fjölskyldan flutti til Íslands árið 1824 og settust þau að í Möðrufelli. Þóra giftist Indriða Þorsteinssyni gullsmið og reistu þau sér bú á Akureyri í bæ er þau kölluðuð Indriðabær.
Þóra gaf út matreiðslubók sem hét Ný matreiðslubók ásamt ávísun um litun, þvott og fl. Bókin er 244 bls og hefur að geyma fjölda mataruppskrifta skv. heimldum frá Wekipediu. Hún þýddi uppskriftir úr dönsku og einnig úr öðrum erlendum bókum og þá lagði hún sig fram um að finna þeim íslensk heiti sem þó hafa ekki náð hér fótfestu. Sem dæmi um nöfn eru orðið vöðlubjúga um rúllupylsu og ragout og frikasse þýðir hún sem lystarspað og spaðmusl.
Í bókinni leggur hún líka mikið uppúr hreinlæti við alla matargerð og sagði að það væri ekki nóg að katlar og pottar skíni eins og sól í heiði á búrhillunni ef þeir eru eins og farðakoppar að innan.
Það er gaman að glugga í gamlar heimildir og sjá hvað konur hafa verið duglegar á flestum sviðum og það er víst að ekki hefur alltaf verið auðvelt fyrir þær að vinna að sínum hugðarefnum hvað þá heldur að fá prentuð verkin. Sjá bók hér „Íslenskt mál. Morgunblaðið, 1. ágúst 1987“.
Þóra Andrea Nikólína Jónsdóttir lést árið 1861
Heimild
Hallgerður Gísladóttir (1999). Íslensk matarhefð. Mál og menning, Reykjavík.
Þess má geta að bók Þóru var önnur í röð prentaðra íslenskra matreiðslubóka. Sú fyrsta var Einfalt matreiðslukver fyrir heldri manna húsfreyjur sem kom út árið 1800 eftir Mörtu Maríu Stephensen. Ekki er þó fullljóst hvort hún er í raun höfundur kversins og því má vel segja að bók Þóru hafi verið ein sú fyrsta sem út kom eftir íslenska konu.