ORÐ ERU ÆVINTÝRI
Ég hitti ungan dreng um daginn sem er ekki í frásögu færandi nema vegna þess að hann hafði eignast bók. Bók sem hann hafði með sér hvert sem hann fór. Fimm ára strákurinn tók bókina með sér í bílinn og á sundæfingu og hann tók hana með sér á klósettið og til vina og vandamanna. Alltaf að kíkja og skoða blaðsíðurnar aftur og aftur. Ég varð auðvitað forvitin. Hvað dró barnið svo að bókinni? Alltaf sá hann eitthvað nýtt sem vakti áhuga hans.
Þetta hlýtur að vera góð bók, hugsaði ég. Kíkti í hana og sá strax að um orðabók var að ræða. Orðin eru sett í ramma utan um myndir sem hann var svo að skoða. Mamma hans las fyrir hann orðin og hann leitaði af þeim í myndunum.
Bókin heitir Orð eru ævintýri og er eftir Blæ Guðmundsdóttur, Böðvar Leó, Elínu Elísabet Einarsdóttur og Sigmund Breiðfjörð Þorgeirsson. Menntamálaráðuneytið gefur út og þeir hafa gefið öllum þriggja og fjögurra ára leikskólabörnum hana. Þá er hún aðgengilega sem rafbók inn á mms. Orð eru ævintýri - rafbók | Menntamálastofnun (mms.is)
En bókin á erindi við fleiri en börn á leikskólaaldri því hún gæti nýst mjög vel þeim sem eru að læra tungumálið. Börn sem eru með annað móðurmál og eru að læra íslensku í grunnskóla og þurfa að vera fljót að læra að lesa. Þurfa að komast inn í málið til þess að vera hæf á leikvangi lífsins. Þessi bók myndi henta þeim, ekki síður en leikskólabörnum.