EDDAN Á FJALIRNAR
Harpa Rún Kristjánsdóttir hefur staðið í ströngu undanfarið því auk þess að senda frá sér nýja ljóðabók er hún einn þriggja höfunda leikverksins Edda sem verður frumsýnt í Þjóðleikhúsinu á öðrum degi jóla. Meðhöfundar Hörpu Rúnar eru Jón Magnús Arnarsson og Þorleifur Örn Arnarsson sem jafnframt leikstýrir sýningunni.
Lofað er nýstárlegri nálgun á þennan forna bókmenntaarf, líkt og haft er eftir Hörpu Rún í viðtali við hana sem birtist í Sunnlenska.is:
„Þegar við lásum sögurnar um Goðin og veltum fyrir okkur hvaða erindi þær ættu við nútíma áhorfandann kom svo margt í ljós sem þarf að leita uppi í kjarnanum. Óðinn er til dæmis goð sem þráir þekkingu og byggir sinn heim á allsnægtum fyrir sig og sitt fólk. Þetta er það sem verður heimsmyndinni að falli – ofgnóttin, þekkingarþráin og þetta að vilja alltaf meira og meira. Freyr og Freyja, Vanagoðin, eru tengingin við náttúruna. Þau lifa í hennar hringrás þangað til þau koma sem gíslar í Ásgarð og verða með tímanum samdauna þessum nýja neysluheimi.“
„Innan þessa heims hrærast síðan allskonar persónur sem standa fyrir og takast á við það sama og við erum að glíma við í dag. Þór og karlmennskan og ofbeldið. Sif, konan hans sem tekst á við manninn sinn með öllu sem því fylgir. Loki sem er einhvern veginn allt, bragðarefur og sá sem knýr atburðarásina áfram. Baldur sem er fegurðin sem verður að deyja og Iðunn, drottning æskudýrkunarinnar og svona mætti lengi telja. Það er svo áhugavert að taka þessar gömlu sögur og máta við heimsmynd okkar í dag, sem gengur sama hring í átt til Ragnaraka, aftur og aftur og aftur.“
Á vefsíðu Þjóðleikhússins má nálgast frekari upplýsingar um verkið.