SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir24. desember 2023

JÓLALJÓÐ: JÓLASTJARNAN

Það er ekki úr vegi að birta jólaljóð í tilefni dagsins. Fyrir valinu varð ljóðið Jólastjarnan eftir Nínu Björk Árnadóttur sem er ekki síður við hæfi þegar hugsað er til ástandsins fyrir botni Miðjarðarhafs. 

Skáld.is óskar öllum gleðilegra jóla, farsældar og friðar.

 

Jólastjarnan
 
Skín á himni
heimi sendir bjarma sinn
kominn enn með bjarmann sinn
jólastjarnan mín og þín.
 
Segðu okkur enn í dag
um frelsarann sem fæddist
fæddist til að boða frið
og fæddist fyrir mig og þig.
 
Skín á himni
heimi sendir bjarma sinn
jólastjarnan mín og þín.
 
Brennur hún í austri
brennur hún af sorg.
 
Enn brenna í austri
ómáttugar þjóðir
brenna af sorg
brenna af kvöl
þjóðirnar í austri
brenna af kvöl.
 
Segðu okkur enn í dag
um frelsarann sem fæddist.
 
Segðu að hann komi enn
og breiði friðarfaðminn sinn
móti heimi okkar
og móti mér og þér.
Að hrópað geti allir svo sorg hennar slokkni
sorg hennar slokkni stjörnunnar okkar
- „Yður er í dag frelsari fæddur
sem er Kristur Jesús í borg Davíðs.“

 

(Jólaljóð, 1993, bls. 74-75)