SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir 7. janúar 2024

SUMARBÚÐIR

Gerður Kristný situr ekki auðum höndum frekar en fyrri daginn. Ný smásaga eftir hana, Sumarbúðir, var að birtast á vefnum Stelkur.is.

Í sögunni fara systkini saman í sumarbúðir, bróðirinn er frekur og stjórnsamur og systirin lætur það yfir sig ganga. Ýmislegt er á sveimi í fjölskyldunni, s.s. misrétti og vanræksla. En í sumarbúðunum gerist ýmislegt sem breytir tilverunni. 

Brot úr upphafi sögunnar af vefnum stelkur.is:

...Bróðir minn hafði reyndar farið í aðrar árið áður en þar hafði víst ekki verið gaman. Samt voru þær aðeins fyrir stráka svo hann hafði aldrei þurft að óttast að hitta neina stelpu þar, hvorki mig né aðrar. Eitt kvöldið þegar við sátum yfir grjónagraut og slátri var hringt frá strákasumarbúðunum. Pabbi svaraði en sótti svo mömmu. Hún hálfhljóp í símann þegar hún heyrði hvaðan var hringt og sneri ákaflega þungbúin til baka.
 „Er eitthvað að?“ spurði ég.
 „Borðaðu matinn þinn,“ sagði hún.
 Ég sat því uppi með getgáturnar sem eru oft mun skemmtilegri en sannleikurinn. Líklega hafði bróðir minn fengið að hringja og vildi nú láta sækja sig. Það var óhugsandi að starfsfólkið vildi losna við hann því allir héldu svo upp á hann. Þegar kennarar eða nágrannar heyrðu að hann væri bróðir minn sögðu þeir alltaf glaðir: „Ó, ertu systir hans?“ Hann virtist aldrei hafa hrint þeim í skafl og ausið snjó niður um hálsmálið á þeim. Aldrei hafði hann kallað þetta fólk asna, dýrkað upp lásinn á herberginu þeirra í stað þess að banka eða undið sér að vinkonum þeirra til þess eins að sparka í þær. Þótt mér bæri að sjá bróður minn í friði var ekki innifalið í samkomulaginu að hann sæi mig í friði.

Mynd: Midjourney