Magnea Þuríður Ingvarsdóttir∙11. janúar 2024
EG ELSKA NORÐUR-LOGA-LJÓSIN HÁ
Það er svo yndislegt að fá í hendurnar ljóð frá konu sem hvergi er hægt að finna þegar googlað er. Konu sem var samt sem áður vel skáldmælt.
Gréta Lind kennari og skáld hét réttu nafni Margrét Ívarsdóttir hún var fædd 4. mars árið 1900 á Álftanesi, Bessastaðahreppi. Tók gagnfræðapróf frá Flensborgarskóla árið 1917 og kennarapróf frá Kennarskóla Íslands árið 1929. Síðar matreiðslunám á Hótel Birninum í Hafnarfirði árið 1935.
Margrét orti nokkuð og birti í tímaritum og blöðum bæði ljóð og smásögur. Þá þýddi hún ennfremur ljóð eftir Ottó Lagoni hinn danska og birti í Heimilispóstinum.
Hér eru nokkur ljóð eftir hana sem sýna glögglega hve fimlega hún mundaði bragarpennann sinn.
Brostu
Brostu vinur, brostu.
Brosið þitt mér vekur
von í hug og hjarta
hugraun burtu rekur.
Brosið vekur varma
vorsins æskudrauma,
vefur sálu söngvum,
sefar tregastrauma.
Brostu vinur, brostu,
bros á vörum þínum
er mér helgur hróður
huggun sefa mínum.
Brosið yndisblíða
bræðir hjartans klaka.
Yfir mér sem engill
ætið mun það vaka.
Brostu vinur, brostu.
Brosið þitt mér gefur
himnaríki í hjarta.
hugann sælu vefur
Bið ég Guð og gæfan
gefi drengnum mínum
visku þrek og vilja
að vinna að störfum sínum.
Eg elska
Eg elska blómið smátt á grund er grær
og glatt og fagurt mótu sólu hlær.
Eg elska vorblæ vítt um lönd sem fer
og vorþrá kveikir innst í hjarta mér.
Eg elska norður-loga-ljósin há
í loft hátt er sveiflast til og frá.
Eg elska stjarna, blíða bros þitt hlýtt
er brosir til mín vetrarkvöldið frítt.
Eg elska fugl í fögrum skógarlund
er fagurt syngur vors um blíða stund
Eg elska skrúða-grænum prýdda skóg
og elska fjöll og dal og hlíð og mó.
Eg elska haustkvöld himnesk blítt og rótt
er himinljósin tindra um miðja nótt
og Ægisdætur engin hafa völd.
Hve unaðslegt er þá um hljóðlágt kvöld.