SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir14. febrúar 2019

Þing um þýðingar Ingibjargar Haraldsdóttur

23. febrúar næstkomandi verður haldið spennandi þing um þýðingar Ingibjargar Haraldsdóttur í Veröld - húsi Vigdísar. Þingið ber yfirskriftina Fráleitt að eiga sér draum í febrúar og hefst það klukkan 14.

Ingibjörg Haraldsdóttir var mikilvirkur þýðandi og eru flestum kunnar þýðingar hennar á rússneskum skáldsögum Dostojevskís og Búlgakovs en Ingibjörg þýddi einnig ljóð úr spænsku og sænsku ásamt fjölda leikrita.

Þingið er haldið að frumkvæði Félags þýðenda og túlka í samstarfi við Stofnun Vigdísar Finnbogadóttur og Rússneska sendiráðið. Sigurður Skúlason leikari les úr þýðingum Ingibjargar og Áslaug Agnarsdóttir, Rebekka Þráinsdóttir, Katrín Harðardóttir og Gunnar Þorri Pétursson halda erindi.

Áslaug Agnarsdóttir þýðandi og bókavörður heldur erindið „Þýðendur eru skuggahetjur bókmenntanna“ og síðan tekur við Rebekka Þráinsdóttir, aðjunkt í rússnesku við Háskóla Íslands, með erindið „Hróp, köll og upphrópanir í Glæpi og refsingu.“ Þá fjallar Katrín Harðardóttir, doktorsnemi í þýðingafræði, um þýðingar Ingibjargar á spænskum bókmenntum og loks slær Gunnar Þorri Pétursson botninn í dagskrána með hugvekju um ljóðaþýðingar Ingibjargar úr rússnesku og áhrif þeirra á hennar eigin ljóðlist, en Gunnar lauk við þýðingu Ingibjargar á skáldsögunni Hinum smánuðu og svívirtu eftir Dostojevskí, sem Ingibjörg þurfti að hverfa frá sökum veikinda.

Allir eru velkomnir á þingið og er aðgangur ókeypis. Að þinginu loknu verður boðið upp á léttar veitingar.