ÚTLENDINGUR SKRIFAR ÍSLENSKAR GLÆPASÖGUR Á FINNSKU
Satu Rämö fæddist árið 1980 í Finnlandi en flutti til Íslands fyrir rúmum tveimur áratugum og býr nú ásamt eiginmanni og tveimur börnum á Ísafirði. Satu hefur sent frá sér rúmlega 20 bækur, einkum ferðahandbækur, og samhliða skrifum sinnir hún Instagram-reikningi sem upplýsir Finna um land og þjóð.
Fyrir tveimur árum síðan snerti Satu sér að glæpasagnaskrifum. Hún gerði samning við útgefanda sinn í Finnlandi um þríleik og vakti fyrsta bókin, Hildur, mikla lukku og hlaut metsölu. Ári síðar komu síðan bækurnar Rósa og Björk og Jakob út. Útgáfuréttur bókanna hefur þegar verið seldur til nokkurra landa, þar á meðal Íslands, Þýskalands, Hollands, Frakklands, Danmerkur, Svíþjóð, Noregs, Eistlands og Lettlands. Þegar fyrsta bókin í þríleiknum, Hildur, kom út í Þýskalandi var hún á metsölulista Der Spiegel í rúma tvo mánuði. Þá mun þríleikurinn fljótlega rata á sjónvarpsskjá; til stendur að taka hann upp í ár og auðvitað á Íslandi.
Sögusvið þríleiks Satu er Vestfirðir, þó einkum Ísafjörður, og aðalsöguhetjan er rannsóknarlögreglukonan Hildur sem á sér erfiða fortíð. Satu vildi einnig hafa eina finnska persónu í sögunni og þannig kom hin lögreglan til í hinu klassíska tvíeyki - sem er þó ekki mjög klassískt því finninn Jakob reynist vera mikill áhugamaður um hannyrðir. Lesa má meira um þríleikinn á heimasíðu Satu en vonandi verður þess ekki langt að bíða að hægt verði að lesa sögurnar á íslensku.
Á þriðjudaginn í næstu viku mætir Satu í Norræna húsið en þar ætlar önnur spennusagnadrottning, Lilja Sigurðardóttir, að eiga við hana spjall. Samtalið fer fram á íslensku og eru öll velkomin. Hér má nálgast viðburðinn á Facebook.