SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir29. febrúar 2024

STRÍÐ OG STUÐ Í TMM

Á þessum fallega hlaupársdegi er gott að setjast niður með nýútkomið TMM og glugga í áhugaverðar greinar og skáldskap.

Kápu Tímaritsins prýðir verkið Öryggissvæði: Eldur eftir Freyju Eilífu sem var hluti af uppboðinu List fyrir Palestínu seint á síðasta ári. Birt eru ljóð palestínska ljóðskáldsins Refaats Alareer í þýðingu Þórdísar Helgadóttur en það dreifðist víða um netheima og var þýtt á fjölmörg tungumál eftir að hann lét lífið í sprengjuárás ísraelska hersins 6. desember síðastliðinn. Ómur úr öðru stríði heyrist, eða heyrist ekki, í þýðingum Aðalsteins Ásbergs úr verkinu Heyrnarlaust lýðræði eftir Ilya Kaminsky, úkraínskt-bandarískt ljóðskáld sem mun taka þátt í viðburði á vegum Reykjavík Bókmenntaborg UNESCO þann 14. mars í Mengi.

Af öðru efni heftisins má nefna grein eftir Kristínu Svövu Tómasdóttur um þaggaðar, samkynhneigðar ástir í upphafi 20. aldar og Huldar Breidfjord færir okkur síðasta viðtalið í bili við íslenska handritshöfunda, en þar hefur hann varpað ljósi á þessa vaxandi stétt og áhrif breyttrar neyslu okkar á afþreyingarefni. Smásögur eftir Ólaf Gunnarsson, Elísabetu Jökulsdóttur, Friðgeir Einarsson, Lomma, Sigurlin Bjarneyju og Hauk Arnþórsson prýða heftið auk nokkurra nýrra og spennandi ljóða en þau rita Eiríkur Örn Norðdahl, Vala Hauksdóttir Una Margrét Jónsdóttir og Brynhildur María Ragnarsdóttir. Bókadómar heftisins eru í höndum Þorvalds S. Helgasonar, Jórunnar Sigurðardóttur, Ásta Kristínar Benediktsdóttur og Hafdísar Erlu Hafsteinsdóttur.

Nóg að lesa og pæla!

Og athygli er vakin á greininni Konur í TMM, smelltu á hlekkinn hér fyrir neðan.

 

Tengt efni