SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. mars 2024

BOOKTOK KEMUR TIL BJARGAR!

,,Z-kynslóð virðist í auknum mæli flýja streituvaldandi athyglissugur samfélagsmiðlanna og inn í heim bókanna og það á pappír" er m.a. það sem kom fram í þættinum Bara bækur á Rás 1. Þar segir ennfremur frá því að Embla Rún Hall hafi verið ráðin sem áhrifavaldur fyrir Forlagið á TikTok.

Á TikTok er að finna undirflokkinn BookTok sem nýtur mikilla vinsælda en þar er einkum fjallað um erlendar bækur. Ráðning Emblu Rúnar er viðleitni til að breyta því og koma íslenskum bókmenntum á framfæri. Sjálf segist hún lesa mest á ensku en nú verði breyting þar á. Það verður spennandi að sjá hvort að það takist að auka lestur íslenskra unglinga á íslensku efni. Vonandi lukkast það vel!

Hér má sjá TikTok myndband Emblu Rúnar um bókmenntalestur hennar sem vakti mikla athygli og hér má nálgast BookTok. Það ætti að vera hægt að líta á þetta án þess að vera skráð(ur) inn á TikTok.

Það borgar sig sannarlega að komast inn á þennan markað, því samkvæmt til dæmis þessari umfjöllun reynist BookTok vera orðið eitt stærsta og áhrifaríkasta samfélagið á TikTok. Myndböndin þar hafa fengið hátt í 200 milljarða áhorf og hafa haft talsverð áhrif á metsölulistana.