SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir23. febrúar 2019

Kvæðakonan og sagnaþulurinn Ása Ketilsdóttir

Kvæðakonan og sagnaþulurinn Ása Ketilsdóttir fæddist 6. nóvember árið 1935 á Ytra-Fjalli í Aðaldal og ólst hún upp þar, við gamlar hefðir og þjóðlegan kveðskap. Ása rekur nú bú á Laugalandi í Skjaldfannardal, með aðstoð sona sinna, og því samfara hefur hún bæði ort ljóð og sönglög.

Árið 2010 kom út hljóðbókin Vappaðu með mér Vala en þar kveður Ása, syngur og segir sögur. Tekin voru viðtöl við Ásu af tilefni útgáfu hljóðbókarinnar og má nálgast þau hér: Fyrri þáttur og seinni þáttur.

Árið 2012 sendi Ása frá sér ljóðabókina Svo mjúkt er grasið og auk þess hafa ljóð og greinar birst eftir hana í ýmsum tímaritum. Ása yrkir gjarna náttúruljóð og er ljóðið Haust frá árinu 2012:

​​​​

Haust

Nú hrynja visnuð blöðin af grárri aspargrein og gulnað birkilaufið á freðna kalda rein. Því haustið það er komið og vetur víkur nær völdin bráðum tekur hinn mjallahvíti snær. Höfuð beygir rósin sem greri glugga hjá glæstur litur horfinn og engin blóm að sjá. Og spurn í huga vaknar hvort á hún þrek og þor að þreyja langan vetur uns birtir næsta vor.

Í síðasta þætti Ferðastikla, sem er í umsjón Láru Ómarsdóttur, var Ása sótt heim og þar fór hún m.a. með ævaforna þulu og söng frumsamið lag. Loks má hlýða hér á þessa hæfileikaríku konu fara með stemmu við eigin stöku.

Myndin af Ásu er sótt á Sagnavefinn.