Magnea Þuríður Ingvarsdóttir∙ 3. maí 2024
SVEI ÞÉR ÞOKAN GRÁA
Í fórum mínum er bók sem mér barst í hendur ekki fyrir svo löngu síðan. Mjög forvitnileg fyrir þá sakir að hún fjallar um nítjándualdarkonuna Guðrúnu Ólafsdóttur sem fædd var árið 1866 á Karlastöðum á Berufjarðarströnd. Bókin sem ber heitið ,,Svei þér þokan gráa" 2000 fjallar um Guðrúnu skáldkonu sem í sóknarmannatölum var nefnd niðursetningur aðeins átta ára gömul. Sagan í bókinni fjallar um lífshlaup hennar frá því hún lendir á flækingi þar til hún fær fastan samastað á Skorrastað í Norðfirði á þriðja áratug 20. aldar.
En hvað er svona forvitnilegt við lífshlaup Guðrúnar? Fyrir það fyrsta var hún talin vera gott skáld og seinni tíma menn töldu hana helst líkjast Megasi sjálfum. Persónulega finnst mér margt líkt með þeim Guðrúnu og Látra-Björgu. Bókina skrifar Stefanía Gísladóttir en Stefanía er fædd í Seldal í Norðfirði árið 1959. Stefanía var bóndi í Seldal á árunum 1985-1995 en þá flutti hún til Ástralíu. Í bókinni rekur hún aðdraganda þess að hún hóf að skrifa um Guðrúnu, áhuga og eltingu við heimildir vítt og breitt meðal annars margar munnlegar heimildir.
Stefanía segir að árið 1874 sé Guðrún forsjárlaus niðursetningur á Steinaborg í Berufirði og árið 1877 er hún skráð tökubarn á Karlsstöðum þá ellefu ára gömul, en henni líður ekki vel eins og sjá má á því hvernig hún yrkir um húsbóndann á bænum.:
Kappinn þegar kominn var
á kvíabarminn.
Öxi tók hann sér í arminn
og ætlaði að reiða í konugarminn.
Árið 1881 flytur Guðrún frá Karlastöðum þá 15. ára í Vöðlavík að Hellisfjarðarseli í Skorrastaðasókn og hófst þá eins og segir í bókinni ,,linnulítill" flækingur hennar úr einni vist í aðra. Hún dvaldi þar í fjögur ár og þaðan flytur hún að Björnshúsum í Hellisfirði þaðan að Hellisfjarðarseli og síðan að Gerðisstekk og var hún þar vinnukona. Ekki hefur vistin verið góð í Gerðisstekk því Guðrún yrkir svo.:
Ef þið viljið vita það
hvar þessi ruddi býr
þá geini ég frá því.
Hann býr á lendingarbakkanum
í snotru húsi þar
Gerðistekksbóndi á það.
Hann Rusti og hann Kussi
þeir eru báðir jafnheimskir
Rusti og Kussi
og það líkar mér vel.
Guðrúnu er lýst svo.: Hún var lágvaxin með móbrún augu. Nefstór af langvarandi tóbaksnotkun. Fötin eru fornleg: Sauðskinnskór, ullarsokkar, peysa og vaðmálspils. Þunnleitt grátt hárið tekið saman í fléttu að aftan,skýlan bundin undir höku. Hægri höndin heldur um krókstaf sem á er fest haglaskothylki að neðan til hlífðar gegn sliti. Niðursöxuðu rjólbita er smeygt ofan í tóbakspung. Úr honum er tóbakinu rennt á lítið glas sem hverfur ofan í pilsvasa skáldkonunnar ásamt tóbaksklútnum. Hún rær fram í gráðið og sönglar vísubrot. Einstaka eyra nemdur krókóttann hrynjandann, leyfir honum að fljóta inn í vitundina. Ekker er tónninn alltaf ljúfur. Það vottar fyrir háði og stundum hvessir án fyrirvara (bls 27).
Stefanía segir svo að aðstæður Guðrúnar hafi verið þannig að hún lærði aldrei að skrifa, en hún hafi lært að lesa og samkvæmt heimildum var hún minnug á texta og að hún hafi lært Nýja testamenntið utanbókar. Þá var henni annt um að skáldskapurinn hennar kæmist á blað. Segir hún að þess vegna hafi safn hennar varðveist og er um leið sé það langstærsta heimildin um skáldskap Guðrúnar þá hafa ljóðin hennar gengið manna á milli ,,munnlega. Samt var það svo að safnið hennar fékk nafnið Ljóðaliljur. Hún lét því prenta og fjölrita ljóðin á blöð sem hún svo seldi fyrir nokkra aura.
Guðrún yrkir bæði bundin kveðskap sem og óbundinn. Hún orti allskonar ljóð eins og t.d. þennan sálm.
Dýrð sé þér drottinn minn
daglega hvert eitt sinn
þú lætur ljómann þinn
lýsa oss í himininn.
Þar tengist önd við önd
með ástartryggðarbönd
því drottins blessuð hönd
hún læknar meinin vönd.
Þar amar ekkert að
allir jafn sælir þar
og lofa sinn lausnarar
fyrir lífgjöfina.
Hér er því á ferðinni enn ein 19. aldarskáldkona sem vert er að gefa gaum, bæta í skáldatalið og gleðjast yfir því að geta lesið ljóðin hennar.
Guðrún lést árið 1949.