SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir24. febrúar 2019

Spennandi tímarit

Tímarit Máls og menningar undir nýrri ritstjórn

 

Fyrsta hefti Tímarit Máls og menningar 2019 kom í hús til áskrifenda í síðustu viku og kennir þar margra grasa eins og endranær.

Viðtöl Kristínar Ómarsdóttur við rithöfunda og birst hafa í TMM á undanförnum árum hafa vakið verðskuldaða athygli og í þetta sinn ræðir hún við finnsku skáldkonuna og Vilju-Tuuliu Huotarien sem býr annað hvert ár í Reykjavík og hitt í Helsinki og á íslenskan eiginmann. Eins og Kristínar er von og vísa er viðtalið bæði skemmtilegt og fræðandi.

Kristín Svava Tómasdóttir skrifar grein um þá merku ljóðabókaseríu Meðgönguljóð, lýsir tilurð og framvindu þess merkilega framlags sem hefur verið sem vítamínssprauta inn í íslenska ljóðagerð – og ljóðabókaútgáfu.

Sunna Dís Másdóttir, skáld og bókmenntafræðingur, lýsir „lestarferð“ í gegnum íslenskar ljóðabækur sem komu út á síðasta ári. Leiðin liggur í gegnum stef og þemu sem hún rekst á í þeirri ferð og koma fjölmargar ljóðabækur við sögu.

Umræða um ljóð setur sem sagt mikinn svip á þetta hefti TMM og einnig eru í heftinu birt ný ljóð eftir verðlaunaskáldin Hauk Ingvarsson (sem hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar) og Brynjólf Þorsteinsson (sem hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör). Einnig á ung skáldkona, Brynja Hjálmsdóttir, ljóð í heftinu.

Þá hefur heftið að geyma smásöguna „Hafið gefur okkur börn“ eftir Þórdísi Helgadóttur en smásagnasafn Þórdísar, Keisaramörgæsir, sem kom út síðastliðið haust var með athyglisverðustu bókum liðins árs, þar kveður við nýjan tón í undurfurðulegum frásögnum, eins og rætt var í ritdómi um bókina hér á skald.is

Ýmislegt fleira efni er að finna í tímaritinu, stuttar greinar og hugleiðingar, ásamt hinum ómissandi ítardómum um bækur sem ætíð eiga sinn sess í Tímariti Máls og menningar. Þar er meðal annars að finna dóm um Ungfrú Ísland eftir Auði Övu Ólafsdóttir.

Nýjir ritstjórar

Þetta er annað tímaritið undir nýrri ritstjórn en þær Elín Edda Pálsdóttir og Sigþrúður Gunnarsdóttir, sem deila nú með sér starfi ritstjóra, tóku við síðastliðið haust. Elín Edda (f. 1988) er með BA próf í almennri bókmenntafræði en Sigþrúður (f. 1971) lauk meistaraprófi í íslenskum bókmenntum síðastliðið haust. Auk ritstjórastarfsins gegna þær Elín Edda og Sigþrúður öðrum störfum innan bókaútgáfunnar Forlagsins, sú fyrrnefnda er verslunarstjór í bókabúð Forlagsins á Fiskislóð og Sigþrúður er einn af ritstjórum útgáfunnar og hefur lengi haft barnabókaútgáfu á sinni könnu. Þær taka við af ritstjórn TMM af Silju Aðalsteinsdóttur sem gengdi starfinu í mörg ár (með hléum) með góðum árangri.

Yfirlýst markmið nýju ritstjóranna er að auka fjölda áskrifenda Tímrits Máls og menningar og við hvetjum alla áhugamenn um bókmenntir að verða við áskorun þeirra og gerast áskrifendur, ef þeir eru það ekki fyrir. Það er vel þess virði, TMM býður oftast upp á urmul af áhugaverðu bókmenntaefni, greinar og skáldskap, hugleiðingar og ádrepur.