SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir17. maí 2024

TVÖFALT ÚTGÁFUBOÐ Á LAUGARDAGINN

Á morgun er tvöfalt útgáfuboð og afmælisveisla Ingileifar Friðriksdóttur og Maríu Rutar Kristinsdóttur í bókabúð Sölku, Hverfisgötu, laugardaginn.
 
Ingileif fagnar fyrstu skáldsögu sinni, Ljósbrot, og að auki kemur út önnur bókin í barnabókaflokknum um Úlf og Ylfu, með undirtitilinn Sumarfrí, eftir Ingileif og Maríu. Þá verða myndir Auðar Ýrar til sýnis í gallerí Dýflissu, á neðri hæð Sölku. 
 
Teitið hefst klukkan 16 og boðið verður upp á léttar veitingar, tónlist og gleði. DJ dúettinn Glókollur þeytir skífum og Einar Aron skemmtir yngstu kynslóðinni og býr til blöðrudýr. Öll eru velkomin.
 
 
Um Ljósbrot:
 
Þegar þú stendur frammi fyrir sannleikanum eða ímyndinni, hvort velurðu?
Kolbrún er farsæll framkvæmdastjóri, hamingjusamlega gift og fjölskyldumyndin gæti auðveldlega fylgt rammanum úti í búð. Þegar hún býður sig fram til forseta fer af stað atburðarás sem hún hefði aldrei getað séð fyrir og kastljósið þvingar hana til að líta inn á við og takast á við stórar spurningar.
 
Dóra er nýbyrjuð í menntaskóla og er að fóta sig í nýjum heimi. Eins og það sé ekki nógu flókið fyrir þá þróar Dóra með sér tilfinningar til bekkjarsystur sinnar og af stað fer örlagarík atburðarás.
 
Ljósbrot er áhrifarík saga um ástina og leitina að sjálfinu. Bókin er fyrsta skáldsaga Ingileifar Friðriksdóttur.
 
Um Úlf og Ylfu - sumarfrí:
 
Úlfur og Ylfa eru bestu vinir. Þau eru komin í sumarfrí og eru á leið í ferðalag með mömmum hans Úlfs. Þau ætla að keyra alla leið á Vestfirði og að sjálfsögðu slæst hundurinn Bósi Ljóshár með í för. Vinanna bíða mörg ævintýri á áfangastað, bæði náttúruundur og nýir vinir og þau taka þátt í spennandi keppni.
 
Höfundar bókarinnar eru Ingileif Friðriksdóttir og María Rut Kristinsdóttir sem halda úti fræðsluvettvanginum Hinseginleikinn. Bókin er önnur í röðinni um vinina Úlf og Ylfu. Bókaflokknum er ætlað að fagna fjölbreytileikanum með því að sýna hann í allri sinni dýrð í skemmtilegum sögum fyrir hressa krakka. Fallegar myndir bókarinnar teiknaði Auður Ýr Elísabetardóttir.