SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir19. maí 2024

ALICE MUNRO LÁTIN

Kanadíski rithöfundurinn Alice Munro lést á mánudaginn var, 92 ára að aldri. Hún fæddist 10. júlí árið 1930 í Ontario í Kanada og lést, sem fyrr segir, þann 13. maí síðastliðinn á hjúkrunarheimili í Ontario. Munro giftist fyrri eiginmanni sínum tvítug að aldri, James Munro, og ráku þau saman bókaverslun í Victoria ásamt því að ala upp þrjár dætur. Þau skildu árið 1972, Munro flutti aftur til Ontario og giftist aftur árið 1976. 

Munro byrjaði ung að skrifa og eftir hana birtust smásögur í tímaritum en hún sendi ekki frá sér smásagnasafn fyrr en árið 1968. Þetta fyrsta verk kallast Dance of the Happy Shades en hún sendi frá sér samtals 14 smásagnasöfn. Munro hlaut fjölda verðlauna og viðurkenninga fyrir verk sín og bera þar hæst Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2013. Hún var fyrsti kanadíski höfundurinn til að fá verðlaunin og 13. konan en fimm ár höfðu þá liðið frá því kona fékk þau síðast. Í umsögn nóbelsnefndarinnar sagði að Munro væri meistari samtímasmásögunnar. 

Í kjölfar Nóbelsverðlaunanna var ein bók þýdd eftir Munro á íslensku en það er smásagnasafnið Dear Life sem kom út á ensku 2011 en á íslensku 2014, þá nefnd Lífið að leysa. Silja Aðalsteinsdóttir þýddi verkið, og skrifaði eftirmála, og hlaut fyrir það tilnefningu til íslensku þýðingarverðlaunanna árið 2015.

Um Lífið að leysa

Alice Munro hlaut Bókmenntaverðlaun Nóbels 2013 fyrir smásögur sínar enda þykja þær einstök meistaraverk, knappar, afhjúpandi og spennandi. Söguhetjur hennar eru manneskjur af öllu tagi; ungar og gamlar, ríkar og fátækar, konur og karlar. Hún dregur lesandann inn í líf þeirra af listfengi og áður en hann áttar sig eru þær orðnar honum kærar og nákomnar – þó gallaðar séu eins og fólk er flest. Margar sögurnar lýsa andartaki þegar líf söguhetju breytist eða byltist og ástin er sérstaklega ágengt umfjöllunarefni.

 

Tengt efni