SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir31. maí 2024

RITIÐ, 2024

Þema Ritsins sem út kom þann 29. apríl s.l. er að þessu sinni helgað nýjum rannsóknum í vinnusögu. Rannsóknir á sögu vinnu og vinnandi fólks hafa á undanförnum árum tekið miklum breytingum. Með nýjum sjónarhornum, aðferðum, hugtökum og kenningum hafa sagnfræðingar horfið frá ýmsum viðteknum viðmiðum í því sem á íslensku hefur til skamms tíma verið kallað verkalýðssaga, en mætti líka kalla vinnusaga, sbr. enskan labour history. Undir áhrifum frá kvenna- og kynjasögu, póstkólóníal menningarsögu og hnattrænni sögu (e. global history) hefur sjónum í auknum mæli verið beint að gagnvirku sambandi ólíkra vinnutengsla og því hve vinnusaga er samofin sögu annarra valdakerfa.

Dalrún Kaldakvísl er ein af greinarriturum. Hún fjallar hér um doktorsverkefnið sitt „Huldufreyjur. Ráðskonur í sveit á síðari hluta 20. aldar“. Saga kvenna sem störfuðu á íslenskum sveitaheimilum á síðari hluta 20. aldar. Ég man vel eftir þessum tímum sjálf og þekkti nokkrar konur sem réðu sig til starfa á sveitabæi víða um land. Sumar voru heppnar og jafnvel ílentust en aðrar voru ekki eins heppnar og máttu vera fegnar að komast frá þeirri vist. 

Rannsókn Dalrúnar grundvallast á viðtölum sem tekin voru við fjörutíu og eina fyrrum ráðskonu í sveit; konur sem margar hverjar höfðu starfað sem ráðskonur á tveimur eða fleiri bæjum, alls á 72 sveitabæjum. Viðtölin gera kleift að segja sögu ráðskvenna á grunni sjónarhorns þeirra sjálfra. Í rannsókninni er rakið hvaða störf ráðskonur höfðu með höndum á sveitaheimilum og viðhorf þeirra til verkskyldna  sinna. Aukinheldur er fjallað um félagslega stöðu ráðskvenna, hvorutveggja með hliðsjón af stöðu þeirra áður en þær hófu störf sem ráðskonur og einnig frá ráðskonutíð þeirra. Í því sambandi er sjónum sérstaklega beint að stöðu einstæðra mæðra, sem voru stærsti einstaki hópur kvenna sem sinnti ráðskonustarfinu. Þar að auki er fjallað um takmörkuð réttindi ráðskvenna í vistinni, á starfsvettvangi þeirra, sveitaheimilinu.

Það er svo sannarlega þörf á þessum upplýsingum og ég mæli með að lesendur kíkt á ritið sem hér er aðgengilegt öllum og lesi sér til um tilvist ráðskonunnar.