SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir17. júní 2024

BOGNAR EN BROTNAR ALDREI

Harpa Rún Kristjánsdóttir notaði efnivið úr norrænni goðafræði í ljóð um Sif, gyðju fegurðarinnar og konu þrumugoðsins Þórs. Ljóðið er upprunalega samið í tengslum við leiksýninguna Eddu sem sett var upp í Þjóðleikhúsinu sl vetur og var hluti þess fluttur í sýningunni. Ljóðið birtist nú í fyrsta sinn í heild sinni.

„Þegar við höfundarnir (Jón Magnús og Þorleifur Örn) fórum að kafa í þennan efnivið stóðum við frammi fyrir þessu klassíska vandamáli að það var leit að röddum kvennanna. Þær voru vissulega á staðnum en yfirleitt sem aukapersónur og sjónarhornið var svo oft karlanna.

Persónulega finnst mér oft gott að nálgast svona verkefni í ljóðforminu og úr varð þessi texti, handa Sif, gyðju fegurðarinnar og konu þrumugoðsins Þórs. Heimur norrænnar goðafræði byggir svo mikið á ofbeldi og heimsmyndin sem Óðinn skapar endurspeglar það. Við fórum að velta fyrir okkur hvernig það væri að vera ekki bara kona – eða gyðja – í þessum heimi heldur vera bókstaflega kona mannsins sem er ofbeldið. Mér fannst líka svolítið áhugavert að rekast ekki á neinar sérstakar heimildir um Sif sem gyðju kvenna í sömu stöðu, kvenna sem beittar eru ofbeldi. En kannski er það einfaldlega vegna þess að það var ekkert talað um það, hvorki átrúnaðinn né ofbeldið. Ég ímyndaði mér hana sem þessa konu sem hefur endalausa hæfileika til að lifa af í vonlausum aðstæðum, og bognar og bognar en brotnar aldrei, því það er ekki í boði.

Þuríður Blær sem lék Sif í sýningunni, tók síðan við boltanum þegar æfingaferlið hófst. Hún tók hlutverkið og stækkaði það og víkkaði í allar áttir og tókst að glæða hana ótrúlegu og eftirminnilegu lífi“ segir Harpa Rún.

Ljóðið birtist nú í fyrsta sinn í heild sinni. Til hamingju með 80 ára afmæli lýðveldisins í dag!

 

SIF

Ef þú setur frosk í sjóðandi vatn
þá stekkur hann uppúr.

En ef þú setur hann í kalt vatn,
sem hitnar
ofurhægt
gráðu
fyrir gráðu.

Lætur hann sjóða sig.

Fyrsta höggið –  
ein gráða.

Svo fjölgar þeim
dag frá degi,
ár frá ári.

Og allt í einu er allt svart.
Sólskinið, snjórinn.
Aska
eftir eldingablossa.
Stormurinn á eftir logninu.
Vatn sýður
holdið meyrnar af beinunum.

Þú skelfur á beinunum.
Froskur í vatni.

En ekki ég.

Ég er ekki fórnarlamb.

Mér nægir að bera eitt nafn.

En ég er við allar.

Ég er Gullveig,
sárstungin síðuspjótum.
Brennandi hold á báli.
Embla, þrjósk og þolin.

Ég er bæði kona og kornakur,
gullhaddur
sem þeir síðan þreskja,
þurrka upp
breyta í brauð
og brjóta.

Ég er greitt högg
sem verður aldrei óslegið.

Fegurðin
þungur kross
sem við þráum
að bera
í heimi
fullum af
grimmd.

Ég er móðir Þrúðar
og Móða.

Barna sem ég
bjó skjól
bakvið mann
sem er veggur.

Fyrir þau
stend ég í skugganum
verð samt
að vera ljósið.

Hvað gerist,
þegar vægi vægðar þurrkast út?

Ljósagangur
þrumugnýr
hamarshögg
helbólgin augu
enduróma ör
á sálinni.

Ég ber ör ykkar allra.

Ég er goðmagn
grátandi kvenna
tárin sem læðast
og strjúka þeim vangann.

Sif – samnefnari, sem systrungum aldreigi tekst að spilla.

Hverrar einustu móður
sem felur börn sín bakvið vegg
sem grefur börn sín undan veggjum
byggir vegg
úr sjálfri sér.

Með raun
skaltu börn þín fæða
í henni felst okkar styrkur
í rauninni.

Við höfum lifað heimsendi
og handan hans.

Og eftir sem áður
verð ég að standa keik,
því sama hvað ég reyni
get ég ekki brotnað.

-

Mynd og myndband: Þjóðleikhúsið

Tengt efni