SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir25. júní 2024

FAGURBOÐAR

Einstaklega skemmtileg ljóðabók eftir Þórunni Valdimarsdóttur kom út nú í byrjun sumars. Bókin heitir því fallega nafni Fagurboðar. Þórunn teiknaði myndir á kápu.

Í Fagurboðum eru 35 ljóð og fyrsta ljóðið heitir Gulleggið. Þar gleymdi ég mér á ferðalagi um heiminn, upphafið sem minnir mig á Eddukvæðin og Alviss ,,Himinn á tvö augu:/Sól og Mána. Ljúfu í leikhúsi/bifrastar boga/blika heiðhá ský.

 

 
Gulleggið
 
Himinn á tvö augu:
Sól og Mána
 
Í kjól hans kúra
stjörnur og regnbogar.
 
Hann blikkar og horfir
á Jörðu dansa
hring dags og nætur.
 
Rennir augnskriðu
hlýrri á degi
handan skýjaslæðu.
 
Dregur tunglaugað
oft í pung.
 
Á bjartri nóttu er himinn
vel tileygður.
 
Ljúfu í leikhúsi
bifrastar boga
blika heiðhá ský.
 
Skrattast og drepur,
hræðir, drekkir, frystir,
brennir, þrumar.
Hundslappadrífan
vill hugga.
 
 
Þannig heldur skáldið áfram og leiðir mig um heiminn. ,,Drjúg er kvöl lífs/vegna voða Tímans:/Föður alls sem er. Himinn man/að Jörð er dóttir Sólar/og mamma nætur.
 
 
Skessuríma
 
skessuríma frekjast fram
miðjumoð það mykjuskroð
mussu klessu frussu soð
nammi namm og krossa kramm
kyngi pyngju klaufa dramm.
 
 
Ljóðin í bókinni eru áhugaverð og kennarar ættu sérstaklega að hafa hug á því að láta nemendur sína lesa hana. Vekja athygli á margbreytileika orðanna. Kynna fyrir þeim mátt textans, skringilegheit og furðu og hinsvegar fegurðina og láta þau svo yrkja sjálf. 
 
Ljóðabókin hennar Þórunnar er tilvalin leið til heimspekilegrar gagnrýnnar hugsunar með nemendum. 

 

Tengt efni