Stormviðvörun!
Stormviðvörun var send út til landsmanna árið 2015, þriðja ljóðabók skáldkonunnar Kristínar Svövu Tómasdóttur. Áður hafði hún samið tvær ljóðabækur sem vöktu athygli fyrir hressilegt tungutak og róttækni. Frumraunin Blótgælur (2007) ruddist fram með ælu, djammi og kaldhæðinni ádeilu á lífsstíl og neyslu. Næsta bók, Skrælingjasýningin (2011) þótti hárbeitt og ögrandi. Í Stormviðvörun hafa ljóðin styst, meitlast og mildast, ádeilan er ekki lengur hvöss og klúr.
Alls eru 18 ljóð í bókinni sem fjalla um margvíslegt efni, m.a. þunglynda Íslendinga:
Gróðurhús
Geislavirkur birtukúpull
yfir snævi þakinni jörð
þrisvar á sólarhring er slökkt
svo plönturnar haldi að það sé komin nótt
leggst þá þunglyndi yfir mennska þegna
þessa varma lands
(13)
Fjallað er um Stormviðvörun hér á skáld.is og vel við hæfi að rifja það upp núna í köldu vetrarrokinu.