SAUMAÐU HÖND ÞÍNA HAGA
Afmælisbarn dagsins er Hulda skáldkona. Hún fæddist 6. ágúst árið 1881 fyrr 143 árum síðan. Hulda var okkar fremsta skáldkona þegar við horfum til þeirra skáldkvenna sem fæddust á 19. öldinni. Hún orti mikið og gefin voru út alls 24 verk eftir hana á 80 ára tímabili á milli áranna 1909 til 1990. Hulda er einnig okkar þekktasta skáldkona. Sjá nánar á Hulda (skáld) - Wikipedia, frjálsa alfræðiritið.
Um Huldu er margt og mikið að segja af langri og merkri ævi en kannski er bara nóg að lesa kvæðið hennar ,,Krosssaumur" til þess að tengja við hana. Allavega finnst mér það vera eitt af hennar fallegustu perlum. Í ljóðinu fer hún fögrum orðum um landið sem hún unnir og setur sig í sæti sólarinnar sem þráir að færa ylinn upp að köldu landi. ,,Nú dvelur sólskinsdísin/döpur á pálmaströnd/og langar með ylinn aftur/í okkar köldu lönd,"..
KROSSSAUMUR
Nú dvelur sólskinsdísin
döpur á pálmaströnd
og langar með ylinn aftur
í okkar köldu lönd,
því bezt er þakkað og þegið
allt það, sem hún jörðu ber,
í norðursins ljóshvítu löndum,
þar lengstur veturinn er.
Mjöllin, hún veit af valdi
og viðjar hvert lítið hús.
Í fannbreiður för sín grefur
hin fáráða svanga mús.
Og hvít er nú sólskríkju sængin,
hún sefur í mjallarhlíð
og flögrar, þakklát og þögul,
um þorpin í vetrarhríð.
..
En stjörnurnar skærast skína
um skammdegis næturhöf,
og blikandi bláskær augu
og barnanna fegursta gjöf.
Við ljósið og logann á arni
er leikið og sungið glatt.
Smámeyjar dalanna dafna,
þó dagsólin þær hafi kvatt.
Þær vita, að vorið kemur --
og vefa í dúk og bönd
draumanna rós og reyni
og regnblá sumarlönd.
Þær vefa í lund sína ljósið,
sem logar við nótt og ís,
lauf, sem und klakanum lifir,
lind, sem að aldrei frýs.
--
Hún situr og syngur um vorið,
með sumarsins korngula hár,
þá stórhríðin ströndina plægir
og stormæstur dunar sjár.
Við krossaum hún ein sér unir
og ævintýranna vor.
Að vængjum og vorsins tónum
verður hvert einasta spor.
Æ, saumaðu - ljúfan litla,
hún líður þess stund.
Senn kallar svífandi tíminn
sorgir og tár á þinn fund.
Þá verður það, ef til vill, iðnin,
sem yfir harminn þig ber.
Æskunnar trygga athöfn
í örvænting fróar þér.
Saumaðu lömb og liljur
og ljómandi himinský,
fljúgandi syngjandi svani
og suðandi heiðarbý.
-- Í oftrega Guðrún Gjúka
og gráti þess minntist um hríð.
sem henni gullbókað hafði
Hákonardóttirin blíð.
En saumað ei sverð né brynjur, -
sátt skyldi loks vor jörð
og enginn blóðdropi brenna
blómanna helga svörð,
ef alla þann draum vildi dreyma,
hans dögg myndi græða sár,
sem loga og blæða án líknar
og læst eru bros og tár.
--
Fönnin við húsið hækkar
og hylur hvern lauk og runn,
en þú gleðst við ljómandi liti
og ljóðanna silfurbrunn.
Saumaðu hönd þína haga,
syng huga þinn ríkan með ljóð,
þá áttu þann flugham sem fellir
ei fjaðrir á ís og glóð.
Segðu mér að sunnan 1961
Kveðja Magnea
Hér má lesa um Huldu inn á vefnum okkar.