SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 7. ágúst 2024

ÖSKRIÐ

Það hefur heldur lítið farið fyrir útiveru hjá mörgum í sumar. Sennilega getur fólk kennt sér sjálft um að fara lítið út frekar en þá staðreynd að veðrið hefur verið afleitt. Auðvita á maður ekki að láta það á sig fá og reima bara á sig skóna og halda af stað út í guðs græna náttúruna. Íslensk náttúra skartar líka sínu fegursta á því tímabili sem landinn er í fríi.  Í júní byrjar allt að blómstra og fegurðin nær hámarki sínu í júlí. En það er annað mál sem hér er til umfjöllunnar. Hvað gera menn þegar ekki er hundi úti sigandi?

Grunlaus um það sem kom yfir okkur, þrátt fyrir viðvaranir veðurfræðinga var verslunarmannahelgina undirbúin með það í huga að vera úti við. En nei, veðrið var hoppandi brjálað alla helgina og ég hefði bara getað öskrað og þá komum við að því sem ég vildi segja ykkur. Storytel bjargaði helginni. 

Inná Storytel er að finna ógrynni af allskonar bókum. Bækur sem höfða til allra. Ég settist niður fletti í gegnum marga bókaflokka. Ævisögur, skáldsögur, klassískar sögur, viðskiptabækur, rómantík, sjálfshjálp og erótík og fleira og fleira. Ég valdi mér bók úr flokknum glæpasögur. Bókin Öskrið 2024 ný bók eftir Önnu Margréti Sigurðardóttur varð fyrir valinu.

 

 

Bókin var spennandi frá fyrstu blaðsíðu. Bergþóra og Jakob eru rannsóknarlögreglur og glíma við að leysa tvö morðmál. Ekki virðist í upphafi sem um eiginleg morð væru að ræða og er það vandinn sem þau standa frammi fyrir að leysa. Bergþóra er einstaklega skemmtilegur og áhugaverður karakter og Anna Margrét fær hrós frá mér fyrir. Fléttan er flókin og liggur ekki í augum uppi fyrr en langt er liðið á bókina. Síðasti kaflinn var ótrúlega spennandi og ég drakk í mig hvert orð. Öll samtöl, allar hugsanir og útspil eru vel úthugsuð og gleymdi ég mér alveg við hlustunina á henni. Gat ekki lagt hana frá mér fyrr en ég var búin með hana alla.

Söguþráðurinn er góður, höfundur skiptist á að leggja fram ólík sögusvið sem tengjast svo í lokin. Innri tími er stuttur, sagan gerist á nokkrum dögum en ytri tíminn gerist í nútímanum. En það er einmitt það sem er styrkur bókarinnar að mínu mati. Innra raunsæið eða það sem er kallað innra sjónarhorn sem birtist í karakter Bergþóru er frábært vegna þess að lesandinn þekkir sig í umhverfinu.

Lesarinn er Þórunn Lárusdóttir og ég held að henni hafi þótt sagan jafnspennandi og mér því ég skynjaði spennuna hjá henni við lesturinn auka þess er Þórunn frábær lesari.

Ég mæli með lestri á þessari 3. bók Önnu Margrétar um lögreglutvíeykið Bergþóru og Jakup. 

Nú er bara að byrja á hinum tveimur.

Kveðja Magnea