SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 6. mars 2019

Hin tvífætta bráð

Föstudaginn 8. mars verður málstofa með yfirskriftinni Hin tvífætta bráð haldin í stofu 101 í Árnagarði, kl. 13:15-14:45.

Lýsing málstofunnar er eftirfarandi:

Baráttan fyrir auknum réttindum og frelsi kvenna hefur harðnað og stuðningur við hana vaxið síðustu tvo áratugina. Orsakir þess eru margvíslegar, uppreisnir og aðgerðir kvenna, bæði í raun- og netheimum, hafa vakið athygli á óheyrilegum kröfum sem gerðar eru til kvenna í neyslusamfélagi nútímans. Þær séu fyrst og fremst skoðaðar sem kynverur, gerðar miklar kröfur til þeirra um útlit, hegðun, tekjur en líka þátttöku í atvinnulífi. Samtímis eru konur ennþá gerðar ábyrgar fyrir heilsu og velferð sinna nánustu. Að svo seint gengur að útrýma kúgun og mismunun kvenna stafar mögulega af því að margar þeirra eru beittar ofbeldi sem enginn þykist vita af. Hvers vegna fær það að viðgangast? Um það fjallar þessi málstofa.

Málstofan samanstendur af eftirfarandi fyrirlestrum:

Helga Kress: "Era gapriplar góðir" - Um barnagirnd og barnaníð í íslenskum bókmenntum

Fjallað verður um nokkrar frásagnir af kynferðislegu ofbeldi gagnvart börnum í íslenskum bókmenntum, upplifun þeirra á ofbeldinu, viðbrögð og þöggun samfélagsins, jafnt innan texta (annarra persóna) sem utan (viðtakenda, lesenda), ásamt úrvinnslu höfunda og túlkun á eigin frásögnum sem bornar verða saman við sögulegar heimildir (m.a. réttarskjöl) eftir því sem verður við komið. Af verkum sem tekin verða fyrir má nefna Njálu frá 13. öld, Randíði á Hvassafelli (1892) eftir Jónas Jónasson frá Hrafnagili, sem byggir á frægu dómsmáli frá 15. öld, Sölku Völku (1931-32) Heimsljós (1937-40) og Íslandsklukkuna (1943-46) eftir Halldór Laxness, Jójó (2011) og Fyrir Lísu (2012) eftir Steinunni Sigurðardóttur og Náðarstund (2014, Burial Rites, 2013) eftir Hönnuh Kent, sem fjallar um sögulega atburði á Íslandi á fyrri hluta 19. aldar.

Soffía Auður Birgisdóttir: "Þessi tvífætta villibráð"

Árið 1980 birtist grein Svövu Jakobsdóttur „Reynsla og raunveruleiki“ þar sem hún velti fyrir sér ótta kvenna sem eru einar á ferð að næturlagi. Nú tæpum fjórum áratugum síðar birtist þessi ótti sem áleitið þema í skrifum kvenna á öllum aldri. Í erindinu verður spurt hvort það að upplifa sig í hlutverki villibráðar sé óhjákvæmilegur hluti af reynsluheimi kvenna og hugað að ástæðum þess og afleiðingum. Skoðuð verða ýmis bókmenntadæmi, t.a.m. eftir Svövu Jakobsdóttur, Ástu Sigurðardóttur, Steinunni Sigurðardóttur, Lindu Vilhjálmsdóttur, Gerði Kristnýju, Fríðu Ísberg og Magnús Sigurðsson.

Dagný Kristjánsdóttir: Samsæri

Sænska skáldjöfrinum August Strindberg var ekki vel við kvennahreyfinguna og talaði um alþjóðlegt samsæri kvenna sem stefnt væri gegn körlum. Hann sagði þessa fleygu setningu: „Sérhver heilbrigður maður er kvenhatari.“ Sögur af alþjóðlegum samtökum karla gegn konum og konum gegn körlum hafa verið lífseigar. Eru þær sprottnar af ótta eða ætlaðar til að skapa ótta? Í erindinu verða tekin til umræðu nokkur valin atriði úr verkum eftir Kristínu Eiríksdóttur, Valerie Solanas, Steinunni Sigurðardóttur, Guðmund Brynjólfsson, Diddu og Steinar Braga.

Nánari upplýsingar um Hugvísindaþingið má finna á heimasíðu þingsins. Þar er að finna alla dagskrá beggja daga sem og lýsingar á málstofum og fyrirlestrum.