SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Ritstjórn 7. mars 2019

Samlíðan og sársauki, kyn og ofbeldi ...

Á föstudaginn 8. mars verður málstofan Samlíðan og sársauki, kyn og ofbeldi með hugrænni slagsíðu í stofu 101 í Árnagarði, kl. 15:15-17:15.

Í málstofunni verður varpað fram spurningum um það hvaða hlutverki samlíðan gegnir í umræðu um kynbundið ofbeldi eins og það birtist í erótík, valdbeitingu, stjórnmálum og reimleikum. Meðal íslenskra samtímaverka sem tekin verða til athugunar eru Sjóveikur í München eftir Hallgrím Helgason, Dísusaga eftir Vigdísi Grímsdóttur og Rökkur eftir Erling Óttar Thoroddsen.

Málstofan samanstendur af eftirfarandi fyrirlestrum:

Bergljót Soffía Kristjánsdóttir: Lífið og listin, erótík og nauðgun. Þankabrot um Sjóveikur í München.

Hvernig bregst lesandi við frásögn af ungum manni sem er heillaður af verkum Marcels Duchamp, þar á meðal þeim sem miðla erótík, en er sjálfum nauðgað í atburðanna rás? Í fyrirlestrinum verður fjallað um sögu Hallgríms Helgasonar, Sjóveikur í München, rætt um frásögn og lesanda, myndir og túlkun, náttúru og listsköpun, árekstra ímyndunarafls og veruleika innan og utan textaheimsins, en ekki síst kenndir lesanda og aðalpersónu.

Guðrún Steinþórsdóttir: „Sambýliskonur […] í sama kroppi, í sama höfði, í sama blóði“: Um átök Dísu og Gríms í Dísusögu eftir Vigdísi Grímsdóttur

Í fyrirlestrinum verður fjallað um Dísusögu eftir Vigdísi Grímsdóttur. Verkið hefur verið kallað skáldævisaga höfundar en í því lýsir Vigdís nauðgun sem hún varð fyrir sem barn og þó einkum afleiðingum hennar. Fram kemur að hún hafi ákveðið að þegja um glæpinn en afleiðingar hans – eins og þeim er lýst í Dísusögu – er klofningur hennar í tvær persónur; Dísu og Gríms. Samskipti persónanna og þá ekki síst valdabarátta þeirra verður til umfjöllunar meðal annars út frá kenningum um tráma, samræðusjálf (e. Dialogical Self Theory) og líkingar.

Sigrún Margrét Guðmundsdóttir: „Það var eitthvað sem gerðist hérna sem mig langaði til að muna“. Reimleikar í Rökkri eftir Erling Thoroddsen.

Byggingarstíll reimleikahúsa hefur tekið stakkaskiptum í aldanna rás, þó hefur innvolsið breyst heldur minna. Í slíkum húsakynnum dyljast gjarnan ljótustu leyndarmálin, þau sem liggja grafin djúpt í kimum mannshugans eða menningarinnar á hverjum tíma. Draugahúsið í Rökkri (2017) er sumarbústaður í íslenskri sveit og jafnvel gotneskt landslag þar sem eitthvað óhreint reikar um. Í fyrirlestrinum verður sjónum meðal annars beint að afturgöngum, rýminu sem þær hafast við í og huliðsmálum sem hvíla í kofanum, náttúrunni, samfélaginu og kannski ekki síst heilanum.

Alda Björk Valdimarsdóttir: Hópar sem hreyfast. Samlíðan, stýring og þórðargleði.

„Stærsti skorturinn í samfélagi okkar og heiminum öllum er skortur á samlíðan.“ Þessi frægu orð Baracks Obama voru sett fram til þess að vekja almenning til vitundar um gildi samhjálpar. Mikið hefur verið rætt að undanförnu um kosti samlíðunar, um mikilvægi þess að setja sig í spor annarra, ímynda sér aðstæður þeirra og gildi þess að vekja upp tilfinningar annarra með okkur sjálfum. Hér verður varpað fram spurningum um það hvort samlíðan eigi sér skuggahliðar. Getur verið að samlíðan geti gert okkur hlutdræg, blind, fordómafull og þröngsýn? Getur samlíðan jafnvel stuðlað að ofbeldi, gert okkur grimm og vægðarlaus í dómum okkar? Til þess að ræða þetta verða tekin nokkur dæmi úr íslenskum og erlendum samtíma.