SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Soffía Auður Birgisdóttir 8. mars 2019

Kynsjúkdómar, kynverund og klám

Laugardaginn 9. mars verður málstofa um kynsjúkdóma, kynverund og klám haldin í stofu 201 í Árnagarði, kl. 13-14:30.

Lýsing málstofunnar er eftirfarandi:

Undanfarin misseri hafa rannsóknir á sviði hinsegin fræða og sögu kynverundarinnar sótt í sig veðrið innan íslenskra hugvísinda. Í málstofunni munu fræðimenn á sviði sagnfræði og fornfræði, bókmennta- og kvikmyndafræði fjalla um kynlíf og kynverund út frá ólíkum sjónarhornum í samhengi íslenskrar sögu og menningar. Rýnt verður í tengsl kynverundar og sjálfsmyndar í sögulegu ljósi og hið flókna samfélagslega stigveldi kynja, stétta og kynhneigða. Jafnframt verður sjónum beint að sjónvarpsmynd frá 1980 sem inniheldur forvitnilegar birtingarmyndir kynverundar sem teljast mætti „afbrigðileg“ eða forboðin.

Eftirfarandi fyrirlestrar verða fluttir:

Hafdís Erla Íris Ellenberger

Hafdís Erla Hafsteinsdóttir og Íris Ellenberger: Sögur af gröðum konum. Óhefðbundin kynverund kvenna á 18. og 19. öld.

Í heimildum af ýmsu tagi, svo sem þjóðsögum, handritum, sagnaþáttum og fjölmiðlaumfjöllun, má finna sögur af konum fyrr á öldum sem fengu viðurnefni á borð við „graða“ og „karlmaður“. Af þeim má ráða að orðið „graður“ hafi ekki ávallt þýtt það sama og í dag, þ.e. kynlífsfýsn, heldur hafi það einnig vísað til karlmennsku eða karlmannlegra eiginleika.

Í fyrirlestrinum, sem byggir á niðurstöðum úr heimildasöfnunarverkefninu „Hinsegin huldukonur: Hinsegin kynverund kvenna í íslenskum heimildum 1700–1960“, verður greint frá frásögnum um konur á borð við Gröðu-Helgu, Gröðu-Gunnu, Guðrúnu karlmann og Þuríði gröðu. Hvað þýddu þessi viðurnefni og hvað fólst í þeim? Hvaða ályktanir má draga um samfélagslega stöðu þessarra kvenna? Hvað segja frásagnirnar okkur um hugmyndir fólks um kyn og kynverund kvenna, annars vegar á þeim tíma þegar konurnar voru uppi og hins vegar þegar sögurnar voru skráðar og gefnar út?

Þorsteinn Vilhjálmsson: Freyjufár. Getnaðarvarnir, kynsjúkdómar og öðrun í Reykjavík um aldamótin 1900.

Nútímavæðing í kynferðismálum er jafnan tengd við stækkandi borgarsamfélög Evrópu og Ameríku á 18. og 19. öld. Við fyrstu sýn kann litla Reykjavík að virðast hafa lítið að gera við þessa þróun. Nýlega hefur áhersla fræðanna þó færst frá því að einblína á stórborgirnar og farið að greina stöðu jaðarsamfélaga, svo sem Íslands, í stærri straumum og stefnum aldanna.

Um aldamótin 1900 var að verða til vísir að borgarsamfélagi í Reykjavík og fylgdu því þjóðfélagsbreytingar sem Íslendingar óttuðust. Þetta svipar til óttans við breytingarnar í stórborgum stærri landa. Þessi fyrirlestur mun greina orðræðu og kynna heimildir um lítt rædda hlið nútímavæðingarinnar í Reykjavík um aldamótin: Tilkomu nýrra getnaðarvarna, vaxandi ótta við kynsjúkdóma og öðrun þeirra sem voru taldir bera þá sjúkdóma manna á milli, þ.e. útlendinga og lágstéttarkvenna. Er hér um að ræða sambærilega þróun og þá sem varð í París og London?

Kristín Svava Tómasdóttir. "Kynlífslosti og kynferðislegt óeðli." Skilgreining kláms fyrir dómi á Íslandi 1960-1980.

Dreifing á klámi hefur verið bönnuð í íslenskum hegningarlögum frá því á síðari hluta 19. aldar. Hugtakið klám hefur hins vegar aldrei verið skilgreint í lögunum og lengi framan af var um takmarkað dómafordæmi að ræða í slíkum málum. Afskipti lögreglu og ríkisvalds af bersöglu efni virðist fyrst hafa hafist að ráði á Íslandi eftir miðja 20. öld og þá ekki síst þegar komið var fram á tíma kynlífsbyltingarinnar svokölluðu eftir 1960.

Í erindinu verður rýnt í þann skilning á klámhugtakinu sem birtist í þeim sex dómsmálum um klám sem fram fóru á sjöunda og áttunda áratug 20. aldar – en sum þeirra snerust um prentmál og önnur um myndefni. Hvað var það í framleiðslu, dreifingu og inntaki þessara verka sem varð til þess að gripið var til aðgerða gegn þeim? Sérstök áhersla verður lögð á að skoða hvernig hugmyndir um eðlilegt og afbrigðilegt kynlíf birtast í dómsmálunum sex.

Guðrún Elsa Bragadóttir: "Dansi dansi dúkkan mín". Klæðskipti og ógnvekjandi kynverund í "Vandarhöggum" Hrafns Gunnlaugssonar.

Íslenskir kvikmyndaunnendur hafa fæstir heyrt um sjónvarpsmyndina Vandarhögg, sem var gerð eftir leikriti Jökuls Jakobssonar og undir leikstjórn Hrafns Gunnlaugssonar og sýnd í Ríkissjónvarpinu árið 1980. Í myndinni ferðast aðalpersónan Lárus á æskuslóðir sínar á Akureyri í kjölfar dauða móður sinnar. Bernskuheimilið og samvera með Emmu, systur hans, vekja upp minningar um móður sem naut þess að gera Lárus að „voða fínni“ dúkku og þær kynferðislegu hvatir sem spruttu af þessu óvenjulega sambandi.

Klæðskipti hafa verið viðfangsefni kvikmynda síðan á árdögum kvikmyndalistarinnar, en birtingarmyndir karlpersóna sem klæðast fötum sem ætluð eru konum hafa jafnan verið neikvæðar, þeir ýmist þótt hlægilegir eða ógnvekjandi og kynferðislega „afbrigðilegir“. Vandarhögg skipar sér í flokk þessara mynda, en er þó fyrir margar sakir áhugaverð vegna þess hvernig hún sameinar kynferðislegan „afbrigðileika“, forboðnar langanir, sifjaspell og kynusla. Í erindinu verður fjallað um þá ofgnótt hinsegin hvata og truflaðra fjölskyldutengsla sem birtist í Vandarhöggum í samhengi við kenningar um kynverund í sálgreiningu og hinsegin fræðum.