VALKYRJUR, FÁNABERAR OG SPÁDÓMAR
Kristín Ragna Gunnarsdóttir, teiknari og rithöfundur, slær ekki slöku við þessa dagana en hún var að senda frá sér bæði bók og spil. Kristín Ragna er löngu orðin að góðu kunn fyrir ungmennabækur sínar sem hún byggir á heimi goða og galdra og nú hefur bæst við safnið Valkyrjusaga.
Svo segir frá Valkyrjusögu:
Ríkulega myndlýst ævintýri! Kötlu leiðist því Máni, besti vinur hennar, er á ferðalagi um Kína. Svo eru amma klettur og göldrótt systir hennar búnar að leggja undir sig heimilið. En Katla kemst í nýstofnað fótboltalið og sumarfríið tekur óvænta stefnu þegar sex valkyrjur úr goðheimum mæta á svæðið.
Þær reynast ekki vera eina ógnin sem steðjar að því dularfullur hópur sem kallar sig Fánaberana lætur líka til sín taka. Í þessari bók má lesa um þegar: fótboltavöllur breytist í kviksyndi í miðjum vináttuleik; skjaldmey á sædrekahryssu skorar Kötlu á hólm; bölvun er lögð á Reykjavíkurhöfn. Katla er sannfærð um að hafa tapað öllum sínum galdaramætti en veit að hún þarf að grípa til einhverra ráða - áður en það er of seint!
Líkt og fyrr segir hefur Kristín Ragna einnig ráðist í að hanna spilastokk og fylgir honum vegleg bók með skýringum og fróðleik. Stokkurinn geymir tarotspil sem eru endurhugsuð út frá sjónarhorni norrænnar goðafræði en fylgja forskrift hefðbundinna Rider-Waite-Smith tarotspila.