SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir10. mars 2019

Rannveig Schmidt - um fruss og handavanda

Rannveig Schmidt (1882-1952) hefur nú bæst við Skáldatalið en hún sendi frá sér tvær bækur auk fjölda blaðagreina. Árið 1945 kom út bókin Kurteisi sem geymir frásagnir af kurteisisvenjum ýmissa þjóða auk tilsagnar í almennri kurteisi. Sumt sem þar kemur fram hefur staðist tímans tönn en annað er barn síns tíma, líkt og gefur að skilja þar sem 74 ár eru liðin frá útkomu bókarinnar. Einn kaflinn nefnist Frussarar og annað og er þar m.a. fjallað um menn sem kallast „frussarar“ og hafa „handavanda“. Segir svo frá einum:

„Einn kunningi hafði fyrir vana í boðum, að einangra einhverja stúlkuna úti í horni - helzt þá laglegustu auðvitað. Hann stillti henni upp að þilinu, studdi hægri hendinni vinstra megin við hana og þeirri vinstri hinum megin, þangað til hún var eins og í búri og gat sig ekki hreyft, en svo lét hann dæluna ganga og munnvatnið frussaðist yfir aumingja stúlkuna, þangað til hún vissi ekki sitt rjúkandi ráð yfir þessum ósköpum, og helzt langaði hana til að kalla á hjálp. Það þarf varla að taka það fram, að flestar stúlkur voru varar um sig, þegar þessi náungi var á næstu grösum. Hann hafði þar að auki „handavanda“, manngreyið, og einu sinni sagði stúlka ein, sem komizt hafði í hann krappann með honum, að ekki væri mögulegt að umgangast hann nema hafa regnhlíf og jafnvel klæða sig brynju.

Annars veit ég ágætt ráð við áleitnum karlmönnum - og hefur reynzt vel. Þú situr kannski í sófa með manni, sem kominn er til ára sinna, en - skulum við segja - hefur „ungar tilhneigingar“. Hann fálmar utan í þig - já, hefur afleitan handavanda. Þú tekur þessu með þolinmæði um stund og svo . . . nei, þú stingur ekki títuprjóni á kaf í kauða - þetta er eiginlega almennilegasti náungi að mörgu leyti og þú kærir þig ekkert um að „særa“ hann - þú bara hvíslar í eyra hans: „Ég þori ekki að sitja hér lengur . . . þú ert allt of hættulegur.“ Svo stendur þú upp og hagræðir þér annars staðar, en karlinn situr einn eftir og veit varla, hvort hann á að styggjast eða vera upp með sér yfir að vera svona „hættulegur“.“