Ritstjórn∙ 1. janúar 2025
LJÓÐ DAGSINS ER NÝÁR
Ritstjórn Skáld.is óskar öllum lesendum sínum gleðilegs nýs árs og birtir í tilefni dagsins ljóðið Nýár eftir Jónu Guðbjörgu Torfadóttur.
Nýár
Gamla árið hverfur hljóðlega af skjánum
stöku flaug skýst upp í himinhvolfið með hvissi
eldglæringar endurspeglast á rúðum húsanna
rauður bjarmi leikur um loftið
það rignir regnboga
fleiri flaugar takast á loft
ærandi sprengjuregn líkt og ættað úr öðrum heimi
malbikið bráðnar og húsin liðast í sundur
falla saman, líkt og í uppgjöf
loftið titrar
og reykmökkurinn leggst eins og þykkt teppi
yfir skerandi óp og barnsgrát
síðan verður allt hljótt
nýtt ártal fyllir út í skjáinn og glösum er lyft
kampavínið er beiskt
einhver segir afsakandi að það sé til nóg að drekka
svo fyllir áhyggjulaus hlátur stofuna
og loftið titrar
langt inn í nýja árið