SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Steinunn Inga Óttarsdóttir22. janúar 2025

LÍFSHÁSKI, KVÍÐI OG SKAPADÆGUR - LJÓÐSTAFUR JÓNS ÚR VÖR 2025

Ljóðið skeljar eftir Önnu Rós Árnadóttur hlaut Ljóðstaf Jóns úr Vör sem var afhentur við hátíðlega athöfn í Kópavogi í gær. Alls bárust 270 áður óbirt ljóð í keppnina. Einnig voru veitt verðlaun í Ljóðasamkeppni grunnskóla bæjarins.

„Seiðandi og blátt áfram, listilega einfalt en með djúpum og uggvænlegum undirtóni,“ sagði dómnefnd um ljóðið skeljar eftir Önnu Rós Árnadóttur. Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri í Kópavogi, afhenti Önnu ljóðstafinn, en hún er fædd 1998 og stundar meistaranám í almennri bókmenntafræði við Háskóla Íslands.

„Þetta er ljóð um lífsháska, kvíða og óumflýjanlegt skapadægur. Strax í upphafi býður óvænt staðhæfing okkur að íhuga samband okkar við hafið, sem er okkur Íslendingum nærtæk og óhjákvæmileg birtingarmynd ógnar. Eftir því sem á líður færist náttúruaflið nær, með stigvaxandi háska,“ sagði dómnefndin jafnframt. Dómnefnd var skipuð þeim Guðrúnu Hannesdóttur, Þórði Sævari Jónssyni og Þórdísi Helgadóttur sem var formaður. 

skeljar eftir Önnu Rós Árnadóttur

öll hús
eru hús við sjóinn
ef maður bara fylgir lögnunum
nógu langt eftir

stundum
þegar hún krýpur á
köldum flísunum
finnst henni hún heyra
daufan óm af
fuglagargi
upp úr klósettskálinni

og þá hugsar hún um söguna
af sjómanninum
sem var spáð sjódauða
og hætti að róa út
hvernig hann flutti
eins langt inn í land
og hann komst
hætti að borða sjávarfang
varð tortrygginn
út í hvern einasta
vota stein
sem varð á vegi hans
í mörg ár
þangað til einn daginn
að hann sofnaði á verðinum
bauð tveimur skipbrotsmönnum gistingu
hún hugsar um sjóstakkana þeirra
hvernig þeir hengdu þá upp
og hvernig það draup af þeim
á forstofugólfið
yfir nóttina
um hreyfingarlaust
andlit mannsins í pollinum
í dögun
að lifa
er að sofna á verðinum
að deyja
er að sofna á verðinum
eins og járnsmiður
hugsar hún
sem gerir vettvangsrannsóknir
á skósólum
eins og konu
sem er spáð sjódauða
en flytur samt
inn í hús
þakið skeljum

Mynd og myndband: MEKÓ