Orlandó í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur
Nýlega kom út í þýðingu Soffíu Auðar Birgisdóttur, Orlandó eftir Virginiu Woolf. Orlandó – ævisaga er í hópi mikilvægustu skáldsagna þessarar merku skáldkonu. Margir telja hana líka skemmtilegustu sögu hennar.
Sagan er afar hispurslaus og umfjöllunarefnið áhugavert en Orlandó er byggð á sambandi Virginiu Woolf og vinkonu hennar – og ástkonu – rithöfundarins Vitu Sackville-West. Í bókinni leikur Virginia sér bæði með tíma sem og hugmyndir um kyn, kynferði og kyngervi.
Sagan hefur verið kölluð ,,lengsta og yndislegasta ástarbréf bókmenntanna“ og eftir henni var gerð kvikmynd með Tildu Swinton í aðalhlutverki.
RÚV ræddi á dögunum við Soffíu Auði um bókina og þýðinguna. Þar kemur fram að verkið tók langan tíma og krafðist natni og yfirlegu: „Virginía Woolf hefur lengi verið minn uppáhalds rithöfundur. Af hennar bókum þá er þetta kannski uppáhalds bókin. Að mínu mati er Orlandó hennar skemmtilegasta bók, um leið og hún er mjög merkileg. Hún er ólík öðrum bókum hennar, að því leytinu til að það er svo mikill léttleiki í stílnum. Bókin er fjörug og skemmtileg. Flestar aðrar bækur hennar eru mun þyngri, heimspekilegri, alvarlegri enda kallað sagðist hún sjálf hafa verið í rithöfundarfríi þegar hún skrifaði hana,“ segir Soffía Auður um Orlandó. Soffía Auður er ekki þýðandi að atvinnu og hefur þýðingarvinnan tekið yfir tíu ár. „Þetta er búið að pússast mikið og svo hef ég haft góða yfirlesara,“ segir hún og bætir við að þrátt fyrir að verkið hafi tekið sinn tíma, hafi henni ekki leiðst eina einustu sekúndu. „Þetta er svo skemmtilegur texti. Hann er flókinn, hún er með flóknar langar setningar enda þekkt fyrir að hafa innleitt ásamt James Joyce og Proust, þetta svokallaða vitundarstreymi, þannig að maður þarf að lesa og endurlesa og endurlesa, til að virkilega ná í öll blæbrigðin af því hvað hún er að segja,“ segir Soffía og bætir við að Orlandó hafi verið verk einfaldlega krafðist þessa tíma." Hér má nálgast umfjöllun RÚV og viðtalið í fullri lengd.
Sigríður Albertsdóttir