Magnea Þuríður Ingvarsdóttir∙ 2. febrúar 2025
UNA JÓNSDÓTTIR
Una Jónsdóttir frá Sólbrekku í Vestmannaeyjum var fædd þann 31. janúar árið 1878 í
Dölum í Vestmannaeyjum.
![](https://skald.is/rails/active_storage/blobs/eyJfcmFpbHMiOnsibWVzc2FnZSI6IkJBaHBBb3djIiwiZXhwIjpudWxsLCJwdXIiOiJibG9iX2lkIn19--ad18cf4c7b1127b2cf0e6f474a4439e619355eee/s%C3%A6kja%20(3).jpg)
Una gaf út tvær ljóðabækur og eina málsháttarbók. Þau eru átakanleg mörg ljóðin sem við lesum í ljóðabókinni Blandaðir ávextir, sögur og ljóð sem út kom árið 1956 og gefið út af höfundi. Um prentun sá Prentsmiðja Þjóðviljans. Bókin hefst á því að Una segir okkur sögur úr uppvexti sínum í Dölum í Vestmannaeyjum og Skurðbæ í Meðallandi. Sögurnar eru fróðlegar og vel skrifaðar, ákveðin heimild um hag alþýðumanna og kvenna. Sögurnar heita, Fólkið í Dölum, Hundurinn Kondút, Þóroddur og hákarlinn, Við lambhúsið, Spurningar og ferming, Flóttamaðurinn og sitt hvað fleira.
Þá eru ljóðin hennar yndisleg og gefa okkur smá innsýn í líðan Unu Jónsdóttur.
Una lést árið 1960
Forlög
Ill mér finnast forlögin
oft þau tárum lauga.
Vinir skilja verða um sinn,
víst þau eru nógu grimm,
að sameina þá sem saman ekki eiga.
og ljóðið
Reynsla
Þá vel mér fannst ég vinna í svip
og virti sannleiks orðið.
Eftir fáein augnablik
allt var burtu horfið.
Æskan byggir oft með sér
ásta- og skýjaborgir.
Þær af hrynja, því er ver,
þrengja að nýjar sorgir.
Vorvísur
Dags í birtu döggin glitrar
dýrleg þegar sólin skín,
andar svalinn, öll þá titra
yndislegu blómin þín.
Fuglar sitja hátt í hlíðum
heyrið vorsins fagra klið,
bergmálsraust í björgum fríðum
blandast tíðum öldunið.
Lömbin fæðast, fljótt þau ganga
fara að hlaupa og leika sér,
iða af fjöri ilmi og angan.
Allt á vorin sjáum vér.
Margar eru góðar gjafir
guðs er náðin veitir blíð,
blessun yfir hauðri og hafi.
Hann því lofum alla tíð.
Allt sem andar, allt sem bærist
um almætti vitni ber.
Allt sem deyr það endurfæðist,
öndin því ódauðleg er.
Vorið lífsins gjafir gefur,
glöð við megum fagna því,
unaðsgeislum um oss vefur
eins að verði hugtök hlý.
Sólskin
Það svífa nú geislarnir, sælir um grund
og sjálfsagt við lofum þann gleðinnar fund.
Ég ríma í huga með rólega lund
og ræði við Guð hverja sólskinsstund.
Þetta var afmælisbarn gærdagsins.
kv
Magnea