Magnea Þuríður Ingvarsdóttir∙ 8. febrúar 2025
HVER ORTI ÞETTA FALLEGA ÁSTARLJÓÐ?
Bráðum líður að Valentínusardeginum.
Hvaða skáldkona orti þetta fallega ástarljóð?
Vísbending, ljóðið var ort fyrir 140 árum síðan.
ÞÚ OG JEG
Við höfum bæði byrjað jafnt
á býsna langri ferð.
Við göngum ekki saman samt,
því svo var leiðin gerð.
Við klifrum bæði bratta hlíð,
sem brosti stundum við;
og sólin okkur signir blíð
með sælli ró og frið.
Þá er eg glöð, því glögt eg veit,
að glatt er sinni þitt;
og eins ef sorg þig særir heit,
það sárt sker hjarta mitt.
Ef elding lýstur yfir þung,
sem ógnun veitir mjer,
þá skelfur þú sem eikin ung
ein í vindi´ og ber.
Við keppumst bæði að komast hátt
og hvíldarstað að ná;
því landið fagra í austur-átt
er okkar beggja þrá;
þar blasir móti blóma-grund,
sem bíður þjer og mjer
í sínu skauti friðar-fund,
nær ferðum lokið er.
Eg vona´ að ferðin verði greið,
eg vona´ hún gangi fljótt.
Við mætumst, þegar lýkur leið
og lúnir hvílast rótt.
Þá byrjar æfi unaðsfull,
sem enn við megum þrá;
og ástin heit og hreinni´ en gull
vor hjörtu tengir þá.
Kv Magnea