SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Jóna Guðbjörg Torfadóttir15. mars 2019

Skáldkonur af erlendum uppruna

Fjölþjóðlega bókmenntatímaritið Ós The Journal vekur athygli á skáldum af erlendum uppruna sem eru búsett á Íslandi og birtir eftir þau efni, sem og eftir íslensk skáld sem dvelja erlendis. Upphaf tímaritsins má rekja til ritsmiðju Söguhrings kvenna og Borgarbókasafnsins í Grófinni sem haldin var á haustdögum árið 2014. Ári síðar héldu fjórtán konur á fimm mánaða námskeið hjá Angelu Rawlings sem haldið var af því tilefni að hundrað ár voru liðin frá því að konur fengu kosningarétt á Íslandi. Í smiðju Rawlings nutu konurnar þess að skrifa það sem þeim datt í hug á þeirra eigin tungu. Þá kom í ljós að margar þeirra höfðu búið lengi á Íslandi og langað að koma sér á framfæri en fengu ekki tækifæri þar sem þær skrifuðu ekki á íslensku.

 

Í kjölfar þessa stofnuðu skáldkonurnar fjórtán Ós Pressuna sem hefur gefið út þrjú hefti af tímaritinu Ós The Journal. Fyrsta heftið kom út 20. október árið 2016, hundrað blaðsíður að lengd og geymir það 23 höfunda og sex tungumál. Næsta hefti kom út 23. nóvember árið 2017, 128 blaðsíður að lengd og hefur að geyma 13 smásögur og 28 ljóð eftir 31 höfund á átta tungumálum. Þriðja heftið kom siðan út í desember á síðasta ári og þar skrifa 23 höfundar á sex tungumálum. Efnt var til upplestra í tengslum við útgáfu þriðja heftisins. Hér má sjá nokkra höfunda lesa upp í Stofunni 14. febrúar síðastliðinn.

Tekið er við innsendum verkum í fjórða hefti bókmenntatímaritsins Ós The Journal fram til 11. apríl 2019, sjá frekari upplýsingar á heimasíðu tímaritsins.