SKÁLD.IS

Konur skrifa um konur sem skrifa

Magnea Þuríður Ingvarsdóttir 2. mars 2025

SAGT ER AÐ TRÚIN FLYTJI FJÖLL, EN FLÓNSKUNA LAGAR HÚN VART

Í gær voru 135 ár frá fæðingu okkar ástkæru Laufeyju Valdimarsdóttur kvenréttindakonu. Hún var fædd 1. mars árið 1890, dóttir Bríetar Bjarnhéðinsdóttur og Valdimars Ásmundssonar. Laufey varð stúdent frá Mennaskólanum i Reykjavík árið 1910 fyrst íslenskra kvenna og formaður Kvenréttbú indafélags Íslands. Á Kvennasögusafninu má lesa þetta um hana Laufey Valdimarsdóttir - Kvennasögusafn.

Öndvegissúlurnar

Laufeyju var umhugað um sögu lands og þjóðar. Snemma heillaðist hún af landnámi Íslands og var Landnáma ein af hennar uppáhaldsbókum. Frásagnir af fyrstu landnámsmönnunum gripu hug hennar eins og segir í lítilli námsbók sem hún gaf út árið 1955. Bókin fjallar um sögu fóstbræðranna Ingólfs Arnarsonar og Leifs Hróðarssonar sem seinna fékk nafnið Hjör-Leifur. Sagan segir frá þeim bræðrum er þeir bjuggu enn í Noregi og lentu í deilum við Atla jarl á Gautum og þeir urðu brottrækir og útlægir þaðan. .

Laufey skrifar sögu þessara manna og myndskreytir og nefnir bókina Öndvegissúlurnar í eftirmála segir hún:

Mér var fyllilega ljóst, að þetta var ekki vandalaust verk að semja slíka bók, þó að öllum vísindum væri sleppt. Þekking á aðbúnaði fólks og háttum þeirra tíma er að mörgu leyti í molum, en vitað er, að mörg tækin, er íslenzka þjóðin hefur haft milli handa fram á síðari hluta 19. aldar og notar enn að nokkru, eru sömu tegundar og forfeður vorir notuðu. Ég hef við gerð myndanna af nokkrum, gömlum búshlutum, stuðzt við teikningar í bók Jónasar Jónssonar frá Hrafnagili. (Íslenzkir þjóðhættir). Um aðrar myndir bókarinnar er það að segja, að þær eru flestar eftir eigin hugmyndum og á eigin ábyrgð).

Um ástæðu deilnanna í Noregi segir sagan að Atli Jarl á Gautum ásamt sonum sínum þremur, þeim Hásteini, Hersteini og Hólmsteini hafi boðið þeim fóstbræðrum til veizlu. Þar komu upp stympingar vegna Þess að Hjörleifur vildi eiga Helgu Arnardóttur en Hólmsteinn hafið þá þegar haft auga á henni. Laufey segir það því vera vegna konu sem Ísland byggðist upp.

Svannasöngur á götu

Einblöðungur sem út kom árið 1930 er lítil ljóðasaga eftir Laufeyju. Ljóðið er um þær áskoranir sem konur urðu oft fyrir og verða svosem ennþá. Kverið ber heitið Svannasöngur á götu. Þar segir Layfey okkur frá í bundnu máli hvernig litið var niður á hegðun kvenna, konur áttu alltaf að vera stilltar og góðar og innan ramma félagslegrar gilda. Ljóðið er í senn bæði um gleðina sem frelsið framundan gaf og hinsvegar um þá áskoranir eins og áður sagði sem konur lenda svo oft í.                                 

Þá María inn í ektastand
anaði hópnum úr,
-því nístingskalt er Norðurland-
við neyddumst að fara á túr.
 
Syng þú aldrei úti á miðri götu,
drekk þú heldur, drektu þig heldur í hel.
 
Oft er það gott sem gamall kvað,
þó gegna því sé mér raun,
á alþing forna var ályktað
það yrði að blóta á laun.
 
Við fylgdum þó okkar aldar sið,
að öllu skal vandlega gáð,
af Hermanni sjálfum höfðum við
hátíðlegt leyfi þáð.
 
Fundarsalurinn fenginn var,
 hann fanst eftir nokkurt þóf,
en um það vorum við ásáttar 
öllu að stilla í hóf.
 
Þó bænum virtist vera þar
-hann vissi það upp á hár -
fjórtán konur, en flöskurnar
fjörtíu og þrjár.
 
Og eins var sagt, þó áfengið
ylti um salargólf,
að alt væri þetta uppgengið
áður en klukkan var tólf.
 
Að orðið hafi þar engri vamm,
ég er ekki að lýsa því,
né hvernig þetta fór nú fram,
frjálst en með kurt og pí.
 
Loks þegar húsi lokað var
og lokið gleðskap þeim,
síðustu fjórar freyjurnar
flögruðu glaðar heim.
 
En ein, sem hafði hljóðin skær
hirti ekki um bendingar
og söng nú - var hún alveg ær -
ákaft tvær hendingar.
 
Við horfðum á tunglið lýsa lágt
letileg silfurský,
þá gnæfði yfir okkur himinhátt
hræðilegt pólití.
 
Í vonzkufullum valdsmannróm
-hann vandaði um okkar far,
ei lét hann standa við orðin tóm,
og ætlaði að grípa okkur þar.
 
- Við syngjum á götu! Sagði þá í
sakleysi hreinu, með ró,
hún litla systir mín: ,,Lokið er því,
leyft er það ekki við sjó.
 
Annað mál væri það upp í sveit".
(,,Þær andmæla, bölvaðar").
En þungbrýnn sagði hann ,,Það ég veit
að þið eru ölvaðar".
 
Ykjur sízt hann segir um
að sé hér kvenþjóðin spilt:
varnarlausan á veginum
vélað hefðum við pilt.
 
- Afsakanir okkar þar
ekkert fengju þýtt. -
Af undrun stóðum við orðlausar
sem alveg var þó nýtt.
 
- Hann þekti okkur allar! - Þvæla tóm,
þarna skorti hann vit.
Nú fengum við aftur rænu og róm
og ríkulegt sjálfsálit.
 
Nöfn okkar hiklaust nefnum þá,
um númerið kröfðum hann,
tuttugu og fjögur taldist sá
tápmikli dánumann.
 
Að svona komnu kvöddum fljótt
-kært er oss ekki þref -
næsta morgun skrifum skjótt
skörulegt kærubréf.
 
En Hermann er mesta trygðartröll,
sín tökubörn agar ei hart.
Sagt er að trúin flytji fjöll,
en flónskuna lagar hún vart.
 
Ó, Jónas, líknar leitum vér,
léttu á hreldri önd.
Því eins er þetta og annað hér,
alt er í þinni hönd.
 
Syng þú aldrei úti á miðri götu,
drekk þú heldur, drektu þig heldur í hel.
 
Líklega var þetta flutt á samkomu öðrum til skemmtunar.
 
Laufey lést árið 1945
 
https://skald.is/skaldatal/213-laufey-valdimarsdottir