ÁSTIN Á SÖGULEGUM TÍMUM - Ný bók eftir skáldkonu fyrir norðan
Kúnstpása er glæný fyrsta skáldsaga Sæunnar Gísladóttur. Hún er sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Akureyri, nú búsett á Siglufirði, og skrifar um bækur fyrir Lestrarklefann. Sæunn þýddi bókina Ósýnilegar konur eftir Caroline Criado Perez sem kom út árið 2021 hjá Sölku. Hún er hagfræðingur og ráðgjafi í þróunarsamvinnu og hefur alltaf verið mikill lestrarhestur.
Í nýju bókinni fléttast saman líf og örlög tveggja ungra kvenna á ólíkum tímum. Óvænt tækifæri banka upp á og ástin kveður sér hljóðs þvert á allar fyrirætlanir.
Bókarkápan er afar smart (eftir Bylgju Rún Svansdóttur) og söguþráðurinn er á þessa leið:
Heimsborgarinn Sóley er nýútskrifaður hljómsveitarstjóri á framabraut í Leipzig sem ætlaði alls ekki að flytja strax aftur heim til Íslands. En þegar heimsfaraldur geisar og öllum tónleikahúsum Evrópu er skellt í lás samþykkir hún að koma heim og reka bókabúð afa síns sumarlangt í heillandi smábæ á hjara veraldar. Og ef þessi óvænta kúnstpása skapaði ekki nógu mikla óreiðu í lífi Sóleyjar bæta kynnin af leiðsögumanninum Óskari sannarlega ekki úr skák.
Um miðja síðustu öld stígur unga ekkjan Sigríður af skipsfjöl í sama smábæ. Hún ætlar að opna verslun í karlaveldi með mótlætinu sem því fylgir. Hún á þó eftir að komast að því að konur eru konum bestar og að það er alltaf ljós við enda ganganna.
Á fb-síðu sinni segir Sæunn um sköpunarferlið:
"Ég hef haft gaman af því að semja texta frá því ég man eftir mér en þegar Covid skall á og hægðist á öllu fékk ég óvæntan frítíma til að sinna skrifum. Þegar ég svo flutti til Siglufjarðar og Snæfríður fór loksins að sofa eitthvað sumarið 2022 fylltist ég innblæstri og úr varð hálft handrit. Síðan fór ég að vinna og frítíminn hvarf en alltaf blundaði í mér að klára þetta handrit, uppfylla íslenska drauminn að gefa út skáldsögu. Það hefur nú loksins tekist og ég býð lesendum í ferðalag um Norðurlandið með hljómsveitarstjóranum Sóleyju og verslunareigandanum Sigríði sem takast á við áskoranir og ástina á sögulegum tímum. Ég vona að þið sláist með í för!"